Keypti strigaskó fyrir 54 milljónir

Skórnir voru framleiddir árið 1972 í tólf eintökum og notaðir …
Skórnir voru framleiddir árið 1972 í tólf eintökum og notaðir af keppendum Ólympíuleikanna það sama ár. Ljósmynd/REUTERS

Dýrustu strigaskór heims voru seldir á uppboði hjá Sotheby's í dag, en um var að ræða eintak af svokölluðum Tunglskóm frá framleiðandanum Nike.

Skórnir voru framleiddir árið 1972 í tólf eintökum og notaðir af keppendum Ólympíuleikanna það sama ár. Annað sem merkilegt þykir við strigaskóna er að þeir voru hannaðir af Bill Bowerman, einum stofnenda Nike, sem sagðist hafa byggt mynstrið á vöfflujárni eiginkonu sinnar.

Áætlað var að skóparið myndi seljast á allt að 160 þúsund Bandaríkjadali. Verðið fór hins vegar langt fram úr björtustu vonum og var það Kanadamaðurinn Miles Nadal sem keypti skóna á rúma 437 þúsund dali, jafnvirði um 54 milljóna króna.

Hann hyggst hafa skóna til sýnis á safni ásamt 99 sjaldgæfum strigaskóm sem hann keypti á einkasölu í síðustu viku.

Skórnir, sem dýrastir voru áður en Tunglskóparið seldist í dag, voru áritaðir körfuboltaskór Michaels nokkurs Jordan frá úrslitaleik körfuboltamóts Ólympíuleikanna árið 1984. Þeir kostuðu 190 þúsund Bandaríkjadali, andvirði rúmlega 24 milljóna króna.

mbl.is