Li Peng fyrrum forsætisráðherra Kína látinn

Li Peng fyrrverandi forsætisráðherra Kína.
Li Peng fyrrverandi forsætisráðherra Kína. AFP

Li Peng, fyrrverandi forsætisráðherra Kína er látinn. Kínverska ríkisfréttastofan Xinhua greinir frá því að Li hafi látist í gærkvöldi af völdum ótilgreindra veikinda. Áður hafði verið greint frá því að Li væri með krabbamein í blöðruhálskirtli. Hann var 90 ára er hann lést.

Li gegndi ýmsum valdamiklum embættum fyrir kínverska kommúnistaflokkinn á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Hann er þó einna þekktastur fyrir sinn þátt í aðgerðum kínverskra stjórnvalda gegn mótmælunum á Torgi hins himneska friðar árið 1989 þar sem kínverskir hermenn drápu hundruð óbreyttra borgar. 

Li fyrirskipaði herlög til að brjóta upp mótmælin. Þó að ákvörðunin um að senda herinn á svæðið væri sameiginleg ákvörðun kínversku stjórnarinnar var Li víða talinn bera ábyrgð á blóðbaðinu. Hann varði síðar þær gjörðir sínar sem „nauðsynlegar“.

Atburðirnir á Togi hins himneska friðar fylgdu honum út stjórnmálaferilinn og kom víða til fjölmennra mótmæla er hann var á ferð erlendis.Til að mynda í París árið 1996 þar sem 2.000 manns þyrptust út á göturnar til að mótmæla því að þáverandi forseti Frakklands Jacques Chirac biði hann velkominn.

Li gegndi engu að síður valdamiklum stöðum innan kínverska kommúnistaflokksins í 15 ár eftir atburðina á Torgi hins himneska friðar og stærsta hluta tíunda áratugarins var hann talinn annar valdamesti maður Kína, á eftir forsetanum Jiang Zemin.

Hann gegndi starfi forsætisráðherra í 11 ár, eða til 1998 og var þingforseti til 2003.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert