Löggur reknar vegna facebookfærslu

Alexandria Ocasio-Cortez.
Alexandria Ocasio-Cortez. AFP

Tveir lögreglumenn frá Louisiana í Bandaríkjunum hafa verið reknir vegna færslu á Facebook um að skjóta ætti þingkonuna Alexandriu Ocasio-Cortez.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið sakaður um kynþáttafordóma í garð Ocasio-Cortez og þriggja annarra þingkvenna eftir að hann sagði þeim að snúa aftur til síns heima. 

„Þetta ljóta fífl þarf að fá skot … og þá er ég ekki að meina eins og hún bauð sjálf upp á,“ skrifaði Charlie Rispoli, lögreglumaður í borginni Gretna í ríkinu Louisiana, á Facebook um Ocasio-Cortez, sem er fyrrverandi barþjónn.

Rispoli var að bregðast við grein sem var birt á vefsíðu sem gefur sig út fyrir að skrifa háðsádeilu, þar sem ranglega var greint frá því að þingkonan hefði sagt að bandarískir hermenn fengju of mikið greitt fyrir sín störf.

Þingkonurnar fjórar: Ayanna Pressley, Ilhan Omar, Rashida Tlaib og Alexandria …
Þingkonurnar fjórar: Ayanna Pressley, Ilhan Omar, Rashida Tlaib og Alexandria Ocasio-Cortez á blaðamannafundi. AFP

Eftir að rannsókn fór fram á málinu var Rispoli rekinn úr starfi ásamt samstarfsmanni sínum Angelo Varisko sem „lækaði“ færsluna.

„Við teljum að báðir þessir lögreglumenn hafi brotið reglur okkar varðandi samfélagsmiðla,“ sagði lögreglustjórinn Arthur Lawson á blaðamannafundi.

„Okkur finnst þetta atvik hafa komið óorði á okkar deild. Þessir lögreglumenn höguðu sér ófagmannlega,“ sagði hann.

„Við líðum ekki að vísað sé til til ofbeldisverknaðar í garð sitjandi þingmanns sem er hluti af stjórnkerfi okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert