Verði send úr landi án aðkomu dómstóla

Innflytjendur frá Mið-Ameríku sem sleppt var úr innflytjendabúðum í McAllen …
Innflytjendur frá Mið-Ameríku sem sleppt var úr innflytjendabúðum í McAllen í Texas. AFP

Bandaríkjastjórn ætlar að kynna í dag nýjar hertari reglur sem koma eiga óskráðum innflytjendum úr landi án aðkomu dómstóla. Nýja reglugerðin heimilar að senda úr landi hvern þann óskráða innflytjanda sem ekki getur sannað að hann hafi búið óslitið í Bandaríkjunum sl. tvö ár.

BBC segir stjórnvöld ætla að birta nýju reglugerðina í dag og að hún muni samstundis taka gildi um land allt.

Samkvæmt þeirri reglugerð sem nú er í gildi má eingöngu senda strax úr landi þá sem hafa verið í Bandaríkjunum í innan við hálfan mánuð og teknir eru innan 160 km frá landamærunum. Mál þeirra sem teknir eru annars staðar, eða sem dvalið hafa lengur, þurfa að fara fyrir dómstóla og þeir eiga rétt á lögfræðiaðstoð.

Stærstu mannúðarsam­tök Banda­ríkj­anna ACLU hafa þegar tilkynnt að þau ætli að fara með nýju reglugerðina fyrir dómstóla.

Innflytjendastefna Bandaríkjanna sætir síaukinni gagnrýni, ekki hvað síst fyrir aðstæður í búðum sem hýsa þá sem koma ólöglega yfir landamærin frá Mexíkó.

Kevin McAleenan, settur heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, segir reglugerðarbreytinguna hjálpa til við að létta „hluta álags og rýmisvanda“ við landamærin. Nýju reglurnar séu því „nauðsynlegt viðbragð við yfirstandandi innflytjendavanda“.

Sérfræðingar segja Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa hug á að gera harða stefnu í innflytjendamálum eitt helsta baráttumál sitt fyrir endurkjöri í forsetakosningunum 2020.

mbl.is