Fetar í fótspor langafa síns

Boris Johnson forsætisráðherra á sér litríkan feril að baki.
Boris Johnson forsætisráðherra á sér litríkan feril að baki. AFP

Það er óhætt að segja að Boris Johnson, nýr forsætisráðherra Bretlands, sé litríkur og jafnvel umdeildur stjórnmálamaður. Hann tók formlega við embætti í dag og hefur heitið því að finna lausn á Brexit innan 99 daga.

Hann á breska foreldra en fæddist í New York í Bandaríkjunum og bjó á yngri árum í Brussel í Belgíu. Hann á ættir að rekja til Tyrklands og ber nafnið Alexander Boris de Pfeffel Johnson, þótt Bretar þekki hann betur sem Boris.

Eins og langafi hans, Ali Kemal, hóf Johnson ferilinn sem blaðamaður og varð síðar stjórnmálamaður. Íbúar þorpsins Kalfat í Tyrklandi segjast stoltir af árangri Johnsons.

Hann hlaut menntun við Eton- og Oxford-háskóla þar sem hann las latínu og gríska fornfræði.

Johnson hefur verið þekktur í Bretlandi um árabil eftir að hafa starfað sem blaðamaður og síðar ritstjóri tímaritsins Spectator. Jafnframt hefur hann komið fram í ýmsum sjónvarpsþáttum eins og gamanþáttunum Have I Got News For You. Þá segir BBC að sérkennilegur tjáningarstíll hans hafi vakið mikla athygli.

Hann varð þingmaður Íhaldsflokksins árið 2001 þegar hann hlaut kjör sem þingmaður Henley-on-Thames, eftir að Michael Heseltine hætti í stjórnmálum.

Johnson hjá Englandsdrottningu í dag.
Johnson hjá Englandsdrottningu í dag. AFP

Beðist afsökunar

Árið 2004 skipaði Michael Howard, þáverandi leiðtogi Íhaldsflokksins, Johnson að fara til Liverpool og biðjast afsökunar á því að hafa gert lítið úr sorg íbúa vegna dauða verkfræðingsins Kens Bigleys í Írak.

Sama ár var hann sviptur embætti sem skuggaráðherra menningarmála eftir að hafa gefið Howard villandi upplýsingar vegna fjölmiðlaumfjöllunar um ástarsamband Johnsons og Petronellu Wyatt, pistlahöfundar hjá Spectator.

Hann lét af störfum sem ritstjóri Spectator árið 2005 þegar David Cameron, þá nýr leiðtogi Íhaldsflokksins, veitti honum embætti skuggaráðherra hærra menntunarstigs.

Johnson hélt þó áfram að vera pistlahöfundur hjá Telegraph og þurfti að biðjast afsökunar árið 2007 í kjölfar þess að hafa gefið í skyn að í Papúa Nýju-Gíneu væri stundað mannát og höfðingjamorð.

Borgarstjóri hjólreiðanna

Johnson sá hins vegar tækifæri í stjórnmálum utan þingsins og sigraði Ken Livingstone, frambjóðanda Verkamannaflokksins og borgarstjóra Lundúnaborgar, í borgarstjórakosningunum árið 2008. Gegndi Johnson embætti borgarstjóra til ársins 2016 og vakti hans sérstaki stíll verulega athygli, ekki síst á fundum borgarstjórnar.

Hann hefur talið borgarstjóratíð sína til vitnis um þann árangur sem hann hafi náð og er oft vísað til árangurs á sviði afbrota, húsnæðismála og samgöngumála. Eitt af því sem Johnson lagði mikla áherslu á voru hjólreiðar og hafði 10,3 milljónum hjóla verið komið í umferð í gegnum hjólaleigu borgarinnar árið 2016.

Þá hefur Johnson hlotið talsverða gagnrýni, meðal annars vegna þess að kostnaður við að breyta ólympíuhöllinni í knattspyrnuvöll í kjölfar Ólympíuleikanna í London árið 2012 var 323 milljónir punda, jafnvirði 50 milljarða íslenskra króna, þrátt fyrir að áætlanir gerðu ráð fyrir 190 milljónum punda.

Einnig hefur Garden Bridge-verkefnið verið gagnrýnt, en 53,5 milljónum punda, jafnvirði 8,2 milljarða íslenskra króna, var eytt í að reisa brú fyrir gangandi vegfarendur án þess að nokkuð yrði úr því.

Í andstöðu við Cameron

Árið 2015 tekur Johnson sæti á þingi á ný fyrir Uxbridge og Suður-Ruislip. Á þessum tíma er Cameron forsætisráðherra og hafði hann í kosningabaráttunni lofað bresku þjóðinni þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Bretlands í Evrópusambandinu.

Studdi Johnson að Bretar myndu yfirgefa Evrópusambandið og vann að því markmiði með brottfararherferðinni (e. Leave) í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2016. Í henni var meirihluti með úrsögn Breta úr Evrópusambandinu (brexit).

AFP

Cameron, sem hafði viljað vera áfram í sambandinu, sagði af sér í kjölfar atkvæðagreiðslunnar og tók Theresa May við hlutverki forætisráðherra. Hún skipaði Johnson í embætti utanríkisráðherra.

Hann tók harða línu gagnvart Rússlandi en var kallaður á teppið fyrir að hafa gagnrýnt Sádi-Arabíu sem hefur verið bandamaður Breta um langt skeið. Þá þurfti hann að biðjast afsökunar á að hafa tekið undir ásakanir íranskra stjórnvalda á hendur breskum ríkisborgara í haldi þarlendra stjórnvalda. Hann sagði af sér árið 2018 í mótmælaskyni og gagnrýndi brexit-stefnu May harðlega.

Sama ár sagði hann í grein í Telegraph að konur í búrkum minntu helst á póstkassa. Sætti hann mikilli gagnrýni fyrir.

Ljóshærður Tyrki

Langafi Johnsons hét Ali Kemal og var blaðamaður í Ottómanaveldinu og rak frjálslynt dagblað í Istanbúl. Bjó hann lengi í útlegð í Evrópu. Var hann síðar kallaður til Tyrklands til þess að gegna embætti innanríkisráðherra í frjálslyndisstjórn Damat Ferid Pasha, en Kemal var myrtur af fylgismönnum þjóðernissinna skömmu síðar.

Ali Kemal
Ali Kemal

Afi Johnsons, Osman Kemal, var búsettur á Englandi á þessum tíma og hafði tekið upp nafnið Wilfred Johnson. Faðir Johnsons, Stanley Johnson, er sérfræðingur á sviði umhverfismála og lýðfræði, en hann er rithöfundur og sat um árabil á Evrópuþingi fyrir Íhaldsflokkinn.

Fram kemur í umfjöllum Hürriyet að íbúar Kalfat í Cankiri-héraði í norðurhluta Tyrklands séu stoltir af árangri Johnsons og hafi boðið honum að heimsækja þorpið. „Þessi fjölskylda hefur meðlimi sem geta leitt heiminn. Þetta heiðrar okkur og gerir okkur stolt,“ er haft eftir Mustafa Bal.

Bal segir ljóst að hár Johnsons sé úr tyrknesku ættinni en ættin hafi í áraraðir borið nafnið „synir hinna ljóshærðu“ (tyrkn. Sarıoğlangiller).

mbl.is