Mueller yfirheyrður í dag

Robert Mueller, sérstakur saksóknari FBI, ber vitni hjá dómsmála- og …
Robert Mueller, sérstakur saksóknari FBI, ber vitni hjá dómsmála- og njósnanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í dag. AFP

Robert Mueller, sérstakur saksóknari FBI, verður í dag yfirheyrður í beinni útsendingu af tveimur bandarískum þingnefndum vegna skýrslu hans um afskipti rússneskra ráðamanna af bandarísku forsetakosningunum 2016.

Fyrri yfirheyrslan yfir Mueller, sem sjálfur hefur sagt skýrsluna vera sinn vitnisburð, hefst klukkan 8.30 að staðartíma. Mun dómsmálanefndin yfirheyra hann fyrst, en síðan tekur njósnanefnd fulltrúadeildarinnar við.

Mueller hefur fengið þau skilaboð frá dómsmálaráðuneytinu að halda sig í vitnisburði sínum innan marka þeirrar ritskoðuðu útgáfu skýrslunnar sem ráðuneytið gaf út og sjálfur hefur Mueller sagst munu ræða eingöngu það sem fram komi í skýrslunni, en í rannsókn hans var m.a. að finna ítarlega útlistun á samskiptum milli starfsfólks framboðs Trumps og rússneskra ráðamanna.

Reuters segir því mikið í húfi fyrir þingmenn demókrata, sem íhuga að ákæra forsetann, sem og Trump sjálfan.

Ólíklegt þykir að Mueller eigi eftir að varpa nokkrum sprengjum með vitnisburði sínum, en demókratar í fulltrúadeildinni vonast engu að síður til að vitnisburður hans muni auka stuðning við rannsókn þeirra á forsetanum og stjórn hans.

Vonast þeir til að vitnisburður Muellers um afskipti Rússa og það hve viljugir starfsmenn framboðs Trumps voru að þiggja aðstoð frá Moskvu verði sannfærandi, sem og af tilraunum forsetans til að standa í vegi fyrir rannsókn Muellers og hvort það megi flokkast sem hindrun réttvísinnar.

mbl.is
Loka