Trump í mál vegna skattframtals

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur nú höfðað mál gegn New York …
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur nú höfðað mál gegn New York til að þurfa ekki að afhenda skattskýrslur sínar. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hóf í gær málshöfðun til að koma í veg fyrir að yfirvöld í New York-ríki afhendi þingnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings skattskýrslur hans. Sakaði lögfræðingur Trumps nefndina, þar sem demókratar eru í meirihluta, um „forsetaáreitni“.

Fullyrða lögfræðingar forsetans að lög, sem New York-ríki samþykkti fyrr í mánuðinum og heimila þingnefndinni aðgang að skattskýrslum Trumps, brjóti gegn stjórnarskrárvörðum réttindum forsetans. Lögin hafi verið samþykkt til þess eins að ná fram hefnd gagnvart forsetanum vegna stefnumála hans, stjórnmálaskoðana og málfrelsis, m.a. vegna þeirrar afstöðu sem hann tók í framboði sínu árið 2016, að því er segir í málshöfðuninni.

Trump hafi því neyðst til að höfða mál til að tryggja lagalegan rétt sinn.

Reuters-fréttaveitan segir nefndina ekki hafa tjáð sig um málshöfðunina, en saksóknari New York, Letitia James, sagði í yfirlýsingu að hún væri þess fullviss að nýja löggjöfin teldist lögleg. „Við munum verja hana af krafti gegn öllum málshöfðunum,“ sagði James.

Hefð er fyrir því að forsetaframbjóðendur geri skattskýrslur sínar opinberar í kosningabaráttu sinni, en Trump hefur ítrekað neitað að gera slíkt. Nefndin hefur hins vegar ítrekað farið fram á að fá skattskýrslurnar afhentar til að geta varpað ljósi á viðskipti forsetans.

Bandaríska fjármálaráðuneytið hefur líka neitað að afhenda skýrslurnar þrátt fyrir alríkislög sem kveða á um að ráðuneytið skuli afhenda slík gögn fari nefndin fram á það. Höfðaði nefndin mál gegn ráðuneytinu fyrr í mánuðinum í því skyni að fá skattskýrslur sl. sex ára afhentar, en ráðuneytið hefur sagt nefndina hafa engan lagalegan tilgang með því að fara yfir skattskýrslur Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert