150 saknað eftir að bátur sökk

Björgunarbátur á ferð um Miðjarðarhafið.
Björgunarbátur á ferð um Miðjarðarhafið. AFP

Um 150 flóttamanna er saknað eftir að bátur þeirra sökk undan ströndum Líbýu.

„Báturinn sökk undan ströndum borgarinnar Khoms um 100 kílómetra frá Trípólí,“ sagði Safa Msehli, talsmaður alþjóðlegu flóttamannasamtakanna IOM í Líbýu.

Alls var 145 flóttamönnum bjargað úr bátnum af strandgæslunni í Líbýu og greindu einhverjir þeirra frá því að 150 til viðbótar væri saknað.  

Ef flóttamennirnir finnast ekki á lífi verður þetta mannskæðasta slysið á Miðjarðarhafinu það sem af er þessu ári, að sögn BBC.

Að minnsta kosti 65 létust í maí eftir að bát þeirra hvolfdi undan ströndum Túnis. Sextán komust lífs af.

Talið er að 164 manneskjur hafi látið lífið á leiðinni á milli Líbýu og Evrópu fyrstu fjóra mánuði þessa árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert