Barr fyrirskipar aftökur fimm fanga

Óformlegt hlé hefur verið á aftökum bandarískra alríkisyfirvalda frá 2003. …
Óformlegt hlé hefur verið á aftökum bandarískra alríkisyfirvalda frá 2003. Nú vill dómsmálaráðherrann breytingu á. AFP

Bandarísk alríkisyfirvöld hafa fyrirskipað að dauðarefsingar verði framkvæmdar á ný eftir 16 ára hlé. Tilkynningin kom frá dómsmálaráðuneytinu, en dómsmálaráðherrann William Barr sagði í yfirlýsingu hafa fyrirskipað fangelsismálastofnun að setja á dagskrá aftökur fimm fanga.

Sagði Barr fangana fimm hafa verið dæmda seka um morð eða nauðganir á börnum og eldri borgurum. BBC segir aftökurnar eiga að fara fram í desember á þessu ári og í janúar 2020.

Sagði Barr í yfirlýsingunni dómsmálaráðuneytið hafa krafist dauðarefsingar gegn verstu glæpamönnunum undir stjórn beggja flokka. „Dómsmálaráðuneytið viðheldur lögum og við skuldum fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra að framkvæma dómana sem dómskerfi okkar veitti,“ sagði í yfirlýsingunni.

William Barr dómsmálaráðherra hefur gert fangelsismálastofnun Bandaríkjanna að undirbúa aftökur …
William Barr dómsmálaráðherra hefur gert fangelsismálastofnun Bandaríkjanna að undirbúa aftökur fimm fanga. AFP

BBC segir tilkynninguna rjúfa óformlegt hlé á dauðarefsingunni hjá alríkisyfirvöldum, en henni hefur ekki verið framfylgt frá árinu 2003, eða frá því að Louis Jones Jr. fyrrverandi hermaður úr Persaflóastríðinu, var tekin af lífi fyrir að ræna og myrða 19 ára hermann,Tracie Joy McBride.

78 manns voru dæmdir til dauða í Bandaríkjunum á árabilinu 1988-2018, en einungis þrír hafa verið teknir af lífi á þessu tímabili. 62 fangar, sem alríkisyfirvöld hafa dæmt til dauða, sitja í fangelsi í dag.

Kvaðst Barr hafa fyrirskipað fangelsismálastofnun að taka upp viðauka sem heimilar að lyfið Pentobarbital verði notað eitt og sér við aftökur, í stað þriggja lyfja sem áður voru notuð við aftökur. Pentobarbital er áhrifamikið róandi lyf sem hægir á líkamsstarfseminni, m.a. taugakerfinu, og getur þannig slökkt á allri líkamsstarfsemi.

Fangarnir fimm sem dómsmálaráðuneytið vill láta taka af lífi nú eru Daniel Lee Lewis, sem myrti þriggja manna fjölskyldu, Lezmond Mitchell, sem myrti 63 ára konu og níu ára barnabarn hennar, Wesley Ira Purkey, sem nauðgaði og myrti 16 ára stúlku og 80 ára konu, Alfred Bourgeois, sem áreitti og myrti 2ja ára dóttur sína og Dustin Lee Honken, sem myrti fimm manns þar á meðal tvö börn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert