„Bretland best í heimi“

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir markmiðið að gera Bretland að ...
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir markmiðið að gera Bretland að besta stað í heimi. AFP

Boris Johnson, nýr forsætisráðherra Bretlands, sparaði ekki stóru orðin í fyrstu ræðu sinni í breska þinginu í dag. Sagði hann markmiðið „að tryggja að Brexit verði 31. október í þeim tilgangi að sameina og endurlífga konungdæmið og gera þetta land að besta stað í heimi“.

Hét Johnson því að koma á öflugu neti fríverslunarsamninga, leysa úr læðingi sköpunarkraft breska hagkerfisins, draga verulega úr losun koltvísýrings og stuðla að þróun nýrrar tækni.

Fram kom í máli forsætisráðherrans að evrópskir ríkisborgarar sem þegar eru í landinu geti verið fullvissir um að þeir fái að búa áfram í Bretlandi í kjölfar Brexit, að því er segir í umfjöllun BBC.

Þá hafi Johnson sagst frekar vilja samning við Evrópusambandið um Brexit heldur en samningslaust Brexit, hins vegar væri mikilvægt að undirbúa hið síðarnefnda. Tilkynnti hann að ráðherranum Michael Gove yrði falið að undirbúa samningslaust Brexit.

Jeremy Corbyn.
Jeremy Corbyn. AFP

Leiðtogi Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, sagði í andsvari að breska þjóðin hefði verulegar áhyggjur af því að Johnson „ofmeti“ sjálfan sig. Jafnframt að fólk treysti honum ekki til þess að taka ákvarðanir með hagsmuni meirihluta þjóðarinnar í huga „þegar hann lofar skattalækkun til efnamestu stórfyrirtækjanna sem greiða í kosningasjóð flokks hans“.

Sagði Corbyn hugmyndir um samningslaust Brexit vera „efnahagslega geðveiki“.

mbl.is
Til sölu nokkrar fágætar bækur
Sjálfstætt fólk 1-2, frumútgáfur með kápum Ilions-kvæði 1856 Flateyjarbók,...
Sumar í Biskupstungum...
Eigum laust sumarhús frá 10. ágúst, 2-3 dagar í senn.. Falleg hús með heitum pot...
Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4 til leigu
Til leigu er 230 fermetra skrifstofurými í austurenda á 5. og efstu hæð Bolholts...