80 þúsund mislingasmit í Evrópu

Bólusetningarhlutfall hefur aukist hratt í kjölfar útbreiðslu mislinga, en WHO …
Bólusetningarhlutfall hefur aukist hratt í kjölfar útbreiðslu mislinga, en WHO telur að það muni ekki duga til þess að stöðva sjúkdóminn. AFP

Yfir 80 þúsund mislingasmit voru tilkynnt í Evrópu fyrstu fimm mánuði þessa árs samkvæmt upplýsingum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Það er nálægt heildarfjölda smita árið 2018, en þá voru þau rúmlega 84 þúsund. Bólusetningarhlutfallið er ekki talið nógu mikið til þess að stöðva sjúkdóminn.

Mikil aukning hefur verið í mislingatilfellum undanfarin ár. Árið 2017 voru tilfellin tæp 26 þúsund og 5 þúsund tilfelli árið 2016.

Fram kemur í stöðuskýrslu stofnunarinnar sem gefin var út í þessum mánuði að um er að ræða alvarlega endurkomu sjúkdómsins, en yfir eitt hundrað hafa látist frá fyrsta janúar 2018 af völdum sjúkdómsins og yfir 160 þúsund smit tilkynnt á sama tíma.

Hlutfallsleg flest smit eiga sér stað í Úkraínu, en fullorðinn einstaklingur sem búsettur er hér á landi greindist með mislinga í þessum mánuði eftir að hafa verið á ferðalagi í landinu.

Hækkuðu viðbragðsstigið

Þá hefur orðið veruleg aukning í bólusetningum eftir að smitum fór að aukast og náðist 91% bólusetningarhlutfall í Evrópu fyrir lok síðasta árs. WHO telur þá þróun jákvæða en að hún dugi ekki til þess að tryggja hjarðónæmi eða til þess að stöðva útbreiðslu sjúkdómsins. Meðal annars vegna þess að hátt bólusetningarhlutfall þjóða tekur ekki tillit til afmarkaðra svæða innan ríkja þar sem bólusetningarhlutfallið er lægra.

Sjötta maí síðastliðinn lýsti WHO því yfir að viðbragðsstig vegna mislingasmita í Evrópu yrði hækkað úr fyrsta í annað stig og að mannauður og fjármagn yrði ráðstafað til þess að bregðast við ástandinu. Viðbragðsstig WHO eru þrjú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert