Ráðist á spítala, skóla og bakarí

Liðsmenn Hvítu hjálmanna draga mann úr brakinu eftir sprengjuárás í …
Liðsmenn Hvítu hjálmanna draga mann úr brakinu eftir sprengjuárás í Idilb í gær. AFP

Yfir 100 manns, þar á meðal 26 börn, hafa látist í árásum sýrlenskra stjórnvalda á sjúkrahús, skóla og bakarí á síðustu 10 dögum. 

Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að dauðsföllin séu hluti af „glórulausri herferð loftárása frá ríkisstjórninni og bandamönnum hennar,“ þar á meðal Rússlands. Þá bætti hún við að skotmörkin hefði ekki verið tilviljunarkennd. Varaði hún við því að þeir sem framkvæmdu  árásirnar gætu verið ákærðir fyrir stríðsglæpi. 

Þá segir Bachelet að viðbrögð heimsins við frásögnunum væru „sýnilegt áhugaleysi alþjóðasamfélagsins“. Þá gagnrýndi hún „misheppnaða forystu valdamestu ríkja heimsins.“

Tala látinna fer síhækkandi í héraðinu Idilb, sem er stjórnað af uppreisnarsveitum. Segir Brachelet átökin í Sýrlandi hafa horfið af sjónarviði alþjóðasamfélagsins og að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi lamast. 

Idlib, ásamt Hama og vesturhluta Aleppo, eru síðustu vígi stjórnarandsæðinga í Sýrlandi eftir átta ára borgarastyrjöld.

Í síðustu viku greindu Sameinuðu þjóðirnar frá því að yfir 350 almennir borgarar hafi látist og 330,000 þurft að flýja heimili sín eftir að átök brutust út í apríl í kjölfar stutts vopnahlés. 

Eftir síðustu einu og hálfu vikuna hefur tala látinna hækkað um 103 og nú er áætlað að yfir 400,000 borgarar hafi þurft að yfirgefa heimili sín.

Myndin sýnir sýrlenskan mann bregðast við þegar tvær sýrlenskar stúlkur, …
Myndin sýnir sýrlenskan mann bregðast við þegar tvær sýrlenskar stúlkur, fastar í braki, halda í yngri systur sína þar sem hún hangir á bolnum sínum. Af systrunum þremur er ein látin og berjast hinar tvær fyrir lífi sínu, meðal annars yngsta systirin sem hangir í græna bolnum á myndinni. AFP
mbl.is