S-Kórea ætti ekki að hunsa „þessa viðvörun“

Kim Jong-un fylgist með eldflaugaskoti.
Kim Jong-un fylgist með eldflaugaskoti. AFP

Yfirvöld í Norður-Kóreu segja að eldflaugatilraun sem gerð var þar í landi aðfaranótt fimmtudags sé viðvörun til nágranna þeirra á suðurhluta Kóreuskaga. 

Haft er eftir Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, í þarlenda ríkismiðliðinum, að Norður-Kórea verði að hafa öflug vopn til að verja sitt land. 

Hann sagði að Suður-Kórea ætti ekki að gera þau mistök að hunsa „þessa viðvörun“.

Flugskeytunum var skotið á loft nærri borginni Wonsan í austurhluta Norður-Kóreu og flugu þau 430 kílómetra áður en þau hurfu í Japanshaf.

Haft var eftir Kim að hans þjóð væri í raun þvinguð til að þróa vopn til að geta varist ógnum. Ummælunum svipar til þess sem kom fram í gær; að yfirvöld í Pyongyang væru ósátt við fyrirhugaða heræfingu Suður-Kóreu og Bandaríkjamanna á Kóreuskaga í næsta mánuði.

Slíkar æfingar fara fram reglulega og eru stjórnvöld í Norður-Kóreu ávallt óánægð með þær og líta á æfingarnar sem undirbúning að árás á Norður-Kóreu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert