Sjórinn fullur af fljótandi líkum

Rauði hálfmáninn safnaði í dag saman jarðneskum leifum hinna látnu …
Rauði hálfmáninn safnaði í dag saman jarðneskum leifum hinna látnu eftir sjóslysið í gær. AFP

Rauði hálfmáninn í Líbýu hefur endurheimt lík 62 flóttamanna í kjölfar eins mannskæðasta sjósslys þessa árs í Miðjarðarhafinu. 

„Björgunarlið okkar í Rauða hálfmánanum hafa dregið 62 flóttamenn“ upp úr vatninu frá því á fimmtudagskvöld, sagði yfirmaður björgunarliðsins Abdelmoneim Abu Sbeih. 

Greint var frá því í gær að um 150 flóttamanna væri saknað eftir að yfirfullur bátur þeirra sökk undan ströndum hafnarborgarinnar Khoms. 

Um 145 manns  var bjargað af líbýsku strandgæslunni og segja sjómenn á svæðinu að sjórinn hafi verið fullur af fljótandi líkömum. 

„Það flóta enn lík á ströndina í sífellu, það er ómögulegt að gefa heildartölu,“ segir Abu Sbeih. 

Samkvæmt sveitarstjórnaryfirvöldum í Khom verða líkin geymd þar til greftrunarstaður hefur verið fundin fyrir þau.

Samkvæmt Læknum án landamæra höfðu flóttamennirnir verið að halda af stað yfir Miðjarðarhafið frá Líbýu í þremur bátum sem bundnir voru saman. Þá segja eftirlifendur að alls hafi um 400 manns verið um borð. 

Yfirmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Filippo Grandi, sagði að slysið væri „versti harmleikur þessa árs í Miðjarðarhafinu“. 

Aðeins nokkrar vikur eru síðan 68 flóttamenn létu lífið þegar bát þeirra hvolfdi undan ströndum Túnís í maí. Sextán komust lífs af, en báturinn var á leið til Ítalíu.

Eftirlifendur slysins sitja við strendur Khoms.
Eftirlifendur slysins sitja við strendur Khoms. AFP
mbl.is