FAA skildi ekki stýrikerfi vélarinnar

Boeing 737 Max farþegaþotur við verksmiðju Boeing í Renton í …
Boeing 737 Max farþegaþotur við verksmiðju Boeing í Renton í Washingtonríki. FAA er sagt hafa veitt Boeing of mikið vald við vottun véla sinna. AFP

Fyrstu dagana eftir að Boeing 737 Max 8 farþegaþota indónesíska Lyon Air flugfélagsins hrapaði úti fyrir ströndum Jövu stóðu bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) frammi fyrir óþægilegri uppgötvun — þau skildu ekki fullkomlega sjálfvirka stýriskerfið sem lét framenda flugvélarinnar beinast niður á við með þeim afleiðingum að vélin hrapaði og allir sem um borð voru létust.

New York Times greinir frá þessu og segir verkfræðinga FAA hafa grandskoðað skrárnar sem þeir höfðu um kerfið, sem átti að koma í veg fyrir ofris. Þeir fundu litlar upplýsingar. Svo virtist sem eftirlitsaðilar hefðu aldrei sjálfir metið áhættuna af MCAS hugbúnaðinum þegar vélin fékk loftferðaleyfi hjá FAA árið 2017.

Vald Boeing nær ótakmarkað

New York Times segir á annan tug núverandi og fyrrverandi starfsmanna FAA og Boeing hafa lýst gölluðu eftirlitsferli sem í raun dró úr yfirumsjón stofnunarinnar. FAA hafði nefnilega árum saman látið framleiðendur sjálfa um ýmis hefðbundin verkefni, sem veitti sérfræðingum FAA aukin tíma til að beina athygli sinn að mikilvægustu öryggismálunum. Hvað Max þoturnar varðaði hafi FAA hins vegar veitt Boeing nær ótakmarkað vald og fyrir vikið hafi helstu starfsmenn FAA ekki þekkt til mikilvægis MCAS kerfisins.

Gallað eftirlit FAA með gerð Boeing 737 Max vélanna hefur hlotið umtalsverða athygli eftir að tvær vélar þessarar gerðar hröpuðu, annars vegar Lion Air vélin og svo vél Ethiopian Airlines í mars á þessu ári með þeim afleiðingum að 346 manns létu lífið. Hefur blaðið áður fjallað um hvernig áður ótilkynntir veikleikar í eftirlitsferlinu höfðu áhrif á öryggi vélanna.

Yfirumsjón í höndum óreyndra verkfræðinga

Boeing framkvæmdi sínar eigin prófanir á kerfinu og þær prófanir voru ekki álagsprófanir eftirlitsaðila. Ör starfsmannavelta hjá FAA fól ennfremur í sér að tveir tiltölulega óreyndir verkfræðingar höfðu yfirumsjón með frumvinnu Boeing við gerð kerfisins.

FAA lét síðan Boeing yfirtaka alla ábyrgð á að samþykkja MCAS kerfið og eftir að það var gert þurfti flugvélaframleiðandinn ekki að deila neinum upplýsingum um kerfið með verkfræðingum stofnunarinnar. Verkfræðingarnir þekktu því lítið til flókins búnaðar MCAS stýrikerfisins.  

Seint á þróunarferlinu ákvað Boeing að auka notkun MCAS búnaðarins til að tryggja að flugvélarnar myndu fljúga mjúklega. Þessi nýja áhættusamari útgáfa byggði á einum nema sem gat ýtt nefni vélarinnar mun lengra niður en tilgreint var í upphaflegu öryggisgreiningunni.

Boeing lagði ekki fram formlegt mat á MCAS stýrikerfinu eftir breytingarnar, þar sem slíks var ekki krafist samkvæmt reglum FAA. Verkfræðingur sem prufuflaug vélunum hjá FAA vissi af breytingunum að sögn embættismanns hjá stofnuninni, en hans hlutverk var að meta hvernig vélin flaug ekki að ákvarða öryggi búnaðarins.

FAA gaf vélinni loftferðaleyfi og fór fram á litla þjálfun flugmanna og leyfði Max vélunum að halda áfram að fljúga í tæpa fimm mánuði eftir fyrra flugslysið, eða allt þar til vél Ethiopian Airlines hrapaði í mars.

Max vélarnar hafa verið kyrrsettar síðan á meðan að beðið er eftir að Boeing lagfæri stýribúnaðinn. Boeing greindi hins vegar frá því fyrr í vikunni að ef kyrrsetningin varir miklu lengur þá kunni fyrirtækið mögulega að neyðast til að hætta framleiðslu þeirra.

Eftirlitskerfið til skoðunar hjá þinginu 

FAA og Boeing hafa varið loftferðaleyfi vélarinnar og sagði FAA í yfirlýsingu sem stofnunin sendi frá sér í gær að starfsfólk FAA hafi eytt yfir 110.000 vinnustundum í vélina, m.a. að fljúga eða fylgjast með 297 tilraunaflugferðum.

New York Times segir bandaríska saksóknara og þingmenn hins vegar nú vera að rannsaka hvort að eftirlitskerfið sé í grunnin gallað og hvort þær reglur sem nú eru í gildi dugi ekki til að tryggja öryggi eftir því sem tækninni fleygir fram.

Fékk MCAS þá athygli sem það þurfti? Það er eitt af því sem við erum að skoða,“ segir Christ Hart fyrirverandi yfirmaður bandarísku samgönguöryggisnefndarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina