Fundu stóran hníf á herbergi ferðamanna

Mario Cerciello Rega var 35 ára.
Mario Cerciello Rega var 35 ára. Ljósmynd/Ítalska lögreglan

Tveir bandarískir ferðamenn hafa verið yfirheyrðir vegna morðs á ítölskum lögregluþjóni snemma á föstudagsmorgun. Ferðamennirnir eru 18 og 19 ára og hefur sá eldri játað morðið.

Samkvæmt ítölskum fjölmiðlum ætluðu piltarnir að kaupa sér eiturlyf en lentu í útistöðum við dópsalann. Lögregla var kölluð á vettvang og eftir átök var lögregluþjónninn Mario Cerciello Rega stunginn til bana.

Piltarnir Finnegan Lee Elder, 19 ára, og Christian Gabriel Natale Hjorth, 18 ára, verða leiddir fyrir dómara á næstu dögum.

Rannsakendur fundu stóran hníf falinn inni á hótelherbergi þeirra.

Skömmu eftir morðið greindu ítalskir fjölmiðlar frá því að lögregla væri að leita að karlmanni frá Afríku. Við það braust út mikil reiði í garð innflytjenda á samfélagsmiðlum.

Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, skrifaði þá á Twitter að hinir seku skyldu hljóta þunga refsingu.

Eftir að í ljós að kom að morðingjarnir eru líkast til bandarískir ferðamenn hefur Salvini látið hafa eftir sér að hann myndi ekki krefjast dauðarefsingar yfir þeim. Sá sem framdi glæpinn ætti skilið lífstíðarfangelsi.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert