Oxycodone framleiðsla Actavis í dómsmáli

Actavis hyggst flytja starfsemi úr landi.
Actavis hyggst flytja starfsemi úr landi. mbl.is/Rósa Braga

Lögregluyfirvöld lyfjamála í Bandaríkjunum (e. Drug Enforcement Administration, DEA) bað Actavis um að minnka framleiðslu ópíóíðalyfja sem fyrirtækið seldi í Bandaríkjunum um 30 til 40 prósent árið 2012, þegar ópíóíðafaraldur geisaði í landinu, að því er fram kemur í umfjöllun Washington Post.

Actavis er sagt eitt þriggja fyrirtækja sem seldu hvað mest af slíkum lyfjum í Bandaríkjunum árin 2006 til 2012. Lyfin voru markaðssett sem óávanabindandi verkjalyf, en reynslan hefur sýnt annað.

Washington Post vísar til dómsskjala úr málum sem hafa voru höfðuð til þess að draga lyfjafyrirtæki til ábyrgðar vegna ópíóíðafaraldursins. Snýr málið sérstaklega að lyfinu oxycodone sem sem Purdue þróaði, en fram kemur að samheitalyfjafyrirtæki voru stærstu framleiðendur og söluaðilar lyfjanna. Mallinckrodt Pharmaceuticals var stærsti framleiðandinn, en Actavis og Par Pharmaceutical eru einnig nefnd.

Róbert Wessman var forstjóri Actavis þegar útrás þess hófst og eignaðist Björgólfur Thor Björgólfsson fyrirtækið árið 2007, en það fór í hendur Deutsche Bank í efnahagshruninu. Actavis var síðan selt árið 2012 og hefur eignarhald breyst margsinnis frá þeim tíma. Einnig hafa eignir Actavis skipt um eigendur, en Coripharma keypti verksmiðju fyrirtækisins í Hafnarfirði af ísraelska fyrirtækinu Teva.

Segjast ekki bera ábyrgð

Árið 2006 seldi Actavis 559 milljónir skammta af samheitalyfi oxycodone til Bandaríkjanna og jókst salan ört í Bandaríkjunum en hún var orðin 1,1 milljarður skammtar árið 2012. Þá sá DEA ástæðu til þess að funda með stjórnendum Actavis og gera þeim grein fyrir afleiðingum faraldursins.

Í október 2012 fóru fulltrúar DEA í höfuðstöðvar Actavis í Morristown í New Jersey og báðu um að fyrirtækið myndi draga úr framleiðslu oxycodone um 30 til 40 prósent. Tillagan var borin undir Douglas Boothe, forstjóra fyrirtækisins, sem hafnaði beiðninni þar sem fyrirtækið fengi ekkert í sinn hlut fyrir að verða við henni.

Í vitnisburði Boothe kemur fram að hann hafi neitað því að fyrirtækið beri ábyrgð þar sem það geti ekki stjórnað því hvernig lyf eru notuð. „Þegar við höfum sent frá okkur lögmæta sendingu til heildsala (…) er okkar hlutverki lokið.“

Í tilkynningum sem lyfjafyrirtækin hafa sent Washington Post vegna umfjöllunarinnar helda lyfjafyrirtækin því fram að ábyrgðin sé hjá spilltum læknum og lyfjafræðingum. Jafnframt að það sé á ábyrgð DEA að tryggja að lyf rati ekki á svartamarkaðinn.

RÚV sagði fyrst frá umfjöllun Washington Post.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert