Ákæra mótmælendur fyrir óeirðir

Frá mótmælunum á sunnudag.
Frá mótmælunum á sunnudag. AFP

Lögreglan í Hong Kong segir að tugir mótmælenda, sem handteknir hafa verið í mótmælum nýverið, verði ákærðir fyrir óeirðir. Við óeirðum liggja þung viðurlög, allt að tíu ára fangelsi. 

Fjöldamótmælin í Hong Kong hafa nú staðið yfir í sjö vikur og hafa þau oftar en ekki endað með ofbeldi. Upphaf mótmælanna var umdeilt lagafrumvarp sem myndi heimila framsal til meginlandsins Kína. Síðan þá hafa mótmælendur kallað eftir auknum lýðræðislegum umbótum. 

Á síðustu vikum hafa mótmælin orðið ofbeldisfyllri og hefur lögregla ítrekað beitt táragasi og skotið gúmmíkúlum að mótmælendum. Á sunnudag brutust út slagsmál á milli mótmælenda og óeirðalögreglu og voru 49 mótmælendur handteknir. 

Yfirmaður lögreglu sagði í dag að 44 af hinum handteknu yrðu ákærðir fyrir óeirðir og verða leiddir fyrir dómara í fyrramálið og gætu margir átt yfir höfði sér allt að áratugarfangelsi. 

Þá hafa stjórnvöld í Peking verið afar gagnrýnin á mótmælin í Hong Kong og kölluðu í gær eftir því að ofbeldisfullum mótmælendum yrði refsað. 

Mótmælendur hafa heitið því að halda herferð sinni áfram þar til þeirra helstu kröfum verður mætt. Krefjast þeir að Carrie Lam, ríkisstjóri Hong Kong, segi af sér, að sjálfstæð rannsókn verði gerð á framgöngu lögreglu, að hinum handteknu verði veitt náðun og að sjálfsstjórnarsvæðinu verði veittur réttur til að kjósa leiðtoga sína lýðræðislega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert