Dauðadómur fyrir morð á konu sinni

Frá réttarhöldum Najafi. Hann er í bláum fangabúningi.
Frá réttarhöldum Najafi. Hann er í bláum fangabúningi. AFP

Fyrrverandi borgarstjóri Teheran, Mohammad Ali Najafi, hefur verið dæmdur til dauða eftir að hafa verið sakfelldur fyrir morð á eiginkonu sinni.

Najafi, sem er þekktur umbótasinni, var fundinn sekur um að skjóta aðra eiginkonu sína, Mistru Ostad, til bana á heimili þeirra í höfuðborginni í lok maí. Lík hennar fannst í baðkeri á heimili þeirra eftir að Najafi, 67 ára, gaf sig fram við lögreglu og viðurkenndi morðið. 

Var Najafi ákærður fyrir morð af ásetningi, líkamsárás og vörslu ólöglegra skotvopna. Féllust íranskir dómstólar á að morðið hafi verið framið af ásetningi og var Najafi dæmdur til dauða. Najafi var sýknaður af líkamsárásarákærunni en fékk tveggja ára fangelsisdóm fyrir vörslu skotvopnsins. Mun Najafi fá tækifæri til að áfrýja dóminum til æðri dómstóls. 

Mohammad Ali Najafi.
Mohammad Ali Najafi. AFP

Réttarhöld Najafi vöktu mikla athygli í Íran og gerðu fjölmiðlar þar í landi ítarlega grein fyrir þeim. 

Najafi, sem er stærðfræðingur, prófessor og þaulreyndur stjórnmálamaður, var efnahagsráðgjafi og menntamálaráðherra Hassan Rouhani forseta. Hann var síðan kjörinn borgarstjóri Teheran í ágúst 2017, en sagði af sér innan við ári síðar eftir gagnrýni frá íhaldsmönnum fyrir að mæta á danssýningu skólastelpna. 

Najafi kvæntist Ostad án þess að skilja við fyrri eiginkonu sína. Það er nokkuð óvanalegt í Íran þar sem fjölkvæni er löglegt en litið hornauga í samfélaginu. 

Margir íhaldsmenn segja að mál Najafi sýni „andlegt gjaldþrot“ umbótasinna í landinu, á meðan umbótasinnar hafa sakað íhaldsmenn sem reka að mestu leyti ríkismiðla Írans, um hlutdrægni í umfjöllun um málið.

Skotvopn og koddi voru notuð sem sönnunargögn í réttarhöldunum.
Skotvopn og koddi voru notuð sem sönnunargögn í réttarhöldunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert