Skutu fjölda eldflauga á loft

Norðurkóresk eldflaug á flugi, en þessari var skotið á loft …
Norðurkóresk eldflaug á flugi, en þessari var skotið á loft síðastliðinn fimmtudag. Ekki liggur fyrir hve mörgum eldflaugum Norður-Kóreumenn skutu á loft í kvöld. AFP

Norðurkóreski herinn skaut „fjölda óþekktra eldflauga“ á loft frá austurströnd landsins í kvöld, samkvæmt stjórnvöldum í Suður-Kóreu.

„Við getum ekki sagt til um það hve langt þær flugu og erum að greina málin og sömuleiðis að búa okkur undir fleiri eldflaugaskot,“ sagði suðurkóreskur embættismaður við AFP-fréttastofuna í kvöld.

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa ekki sent frá sér neina yfirlýsingu vegna eldflaugaskotanna, sem eiga sér stað einungis sex dögum eftir að Kim Jong-un leiðtogi ríkisins fylgdist sjálfur persónulega með tveimur eldflaugaskotum.

Stutt er síðan hann átti eftirminnilegan en snarpan fund með Donald Trump Bandaríkjaforseta á landamærum Kóreuskagans, en endurteknar vopnatilraunir og hernaðaruppbygging Norður-Kóreumanna er einmitt það sem Bandaríkin vilja að ríkið láti staðar numið með.

Harry Kazianis, sem starfar hjá hugveitunni Center for the National Interest í Washington í Bandaríkjunum, segir við AFP að hann telji að eldflaugaskot Norður-Kóreu í kvöld hafi verið viðvörun til Bandaríkjamanna og Suður-Kóreumanna, vegna fyrirhugaðra heræfinga ríkjanna tveggja við strendur Suður-Kóreu í ágúst.

Hann býst við því að Norður-Kóreumenn haldi áfram að skjóta flaugum á loft, í því skyni að reyna að koma í veg fyrir heræfinguna, en ríkið lýsti því yfir eftir eldflaugatilraunirnar á fimmtudag að um væri að ræða „alvarlega viðvörun“ til nágrannanna í suðri vegna fyrirhugaðra æfinga sameiginlegs herafla við Kóreuskagann.

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, fylgist með eldflaugaskotinu síðasta fimmtudag. Enn …
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, fylgist með eldflaugaskotinu síðasta fimmtudag. Enn hefur ekki borist yfirlýsing frá ríkinu vegna skotanna í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert