Telja nauðgara hafa skipulagt tilræði

Mótmælendur styðja stúlkuna sem berst fyrir lífi sínu á spítala.
Mótmælendur styðja stúlkuna sem berst fyrir lífi sínu á spítala. AFP

Mótmælt var á Indlandi í dag og mikil reiði ríkir eftir að táningsstúlka slasaðist lífshættulega í bílslysi. Þarlendur þingmaður var í fyrra dæmdur fyrir nauðgun gagnvart stúlkunni en mótmælendur segja að ekki hafi verið um slys að ræða, heldur hafi þingmaðurinn skipulagt morð úr fangaklefanum. 

Tvær frænkur 19 ára stúlkunnar létust í bílslysinu og lögfræðingur hennar er alvarlega slasaður. Stór trukkur skall á bifreið fólksins í Utt­ar Pra­desh í norður­hluta Ind­lands í gær.

Bílslysið verður rannsakað en margir telja að það verði gert með hálfum huga og að þingmaðurinn, Kuldeep Singh Sengar, hljóti einhvers konar sérmeðferð.

Þrátt fyrir að Sengar hafi verið í fangelsi síðan á síðasta ári nýtur hann ýmissa réttinda sem flestir fangar njóta ekki. Fram kemur í erlendum fjölmiðlum að hann hafi ítrekað hótað fjölskyldu stúlkunnar.

Stúlkan sakaði Sengar um að hafa nauðgað henni fyrir tveimur árum en lögregla neitaði fyrst að rannsaka málið. 

Faðir hennar var hnepptur í varðhald þegar lögregla neitaði að taka mál stúlkunnar fyrir, þar sem hann var pyntaður. Hann lést síðar af sárum sínum.

Stuðningsmenn stjórnarandstöðuflokka á Indlandi mótmæltu í dag. Þar var meðal annars gagnrýnt hvernig þingmaður, sem situr inni, geti skipulagt slíkt tilræði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert