Hætta að fjárfesta í mengandi iðnaði

Evrópski fjárfestingarbankinn er ein stofnana Evrópusambandsins og hefur það meðal …
Evrópski fjárfestingarbankinn er ein stofnana Evrópusambandsins og hefur það meðal annars að hlutverki að vinna að Evrópusamruna og félagslegri samheldni. AFP

Evrópski fjárfestingarbankinn mun hætta að fjárfesta í og lána til orkuverkefna, sem reiða sig á olíu, gas eða kol, strax á næsta ári. Er þetta gert í samræmi við orkustefnu bankans. Þetta kemur fram í grein Guardian.

Haft er eftir talsmönnum bankans að langtímafjárfesting verði að fara að hafa markmið Parísarsamkomulagsins í huga, þar sem stefnt skal að því að hitastig á jörðu hækki ekki um meira en 1,5 gráður frá því sem var árið 1990.

„Orkuskiptin eru mikilvæg til að tryggja að viðkvæmir hópa og svæði séu varin,“ segir í tilkynningu frá bankanum, sem er ein stofnana Evrópusambandsins og hefur það að hlutverki að styðja við atvinnulíf með lánveitingum og fjárfestingum.

Loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg ávarpaði Evrópuþingið í mánuðinum. Hún gleðst sennilega …
Loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg ávarpaði Evrópuþingið í mánuðinum. Hún gleðst sennilega yfir tíðindunum. AFP

Bankinn hefur áður fjármagnað ýmis umhverfisskæð verkefni, svo sem gasleiðslur yfir Adríahafið og olíugeymslur á Kýpur.

Guardian hefur eftir Alex Doukas frá umhverfissamtökunum Oil Change International að ákvörðun bankans sé risastórt skref í umhverfismálum. „Heimsins stærsti fjölþjóðalánveitandi hefur nú sagt skilið við olíu, gas og kol. Evrópusambandsríkin sem stjórna bankanum verða nú að standa við bakið á metnaðarfullri umhverfissýn bankans, og aðrar fjármálastofnanir þurfa að fylgja þeirra fordæmi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert