Sonur Osama bin Laden dáinn

Hamza bin Laden.
Hamza bin Laden.

Hamza bin Laden, sonur Osama bin Laden og meintur arftaki hans sem leiðtogi hryðjuverkasamtakanna al Qaeda, er látinn þrítugur að aldri. Frá þessu greina erlendir miðlar, út frá gögnum sem fengin eru frá leyniþjónustu Bandaríkjanna. Ekki liggur þó fyrir hvernig dauða hans bar að garði, eða hver möguleg afskipti Bandaríkjamanna voru af því.

Síðast heyrðist frá manninum í fyrra, þegar samtökin gáfu út áróðursmyndband þar sem bin Laden beindi því til íbúa Arabíuskaga að „gera uppreisn“ án þess að fara nánar út í þá sálma.

Hamza bin Laden er Sádí-Arabi að uppruna en var sviptur ríkisborgararétti í mars er bandarísk stjórnvöld lögðu milljón dali, um 125 milljónir króna, honum til höfuðs og sögðu hann „lykilleiðtoga al Qaeda“.

Hamza var náinn bandamaður föður síns í Afganistan fyrir árásirnar á tvíburaturnana 11. september 2001 og dvaldi með honum í Pakistan eftir að Bandaríkin réðust inn í landið sama ár, en þangað flúðu æðstu koppar í búri al Qaeda.

Hann var áróðursmaður hryðjuverkasamtakanna frá 2015 og fetar nú á ný í fótspor föður síns, sem einnig er dauður. Osama bin Laden var drepinn af sveitum Bandaríkjahers í Pakistan árið 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert