Stöðvaðir en svo sleppt af lögreglu

Þeir Kam McLeod, 19 ára, og Bryer Schmegelsky, 18 ára, …
Þeir Kam McLeod, 19 ára, og Bryer Schmegelsky, 18 ára, eru grunaðir um að hafa myrt þau Chynna Deese og Lucas Fowler, sem og miðaldra mann sem enn hefur ekki verið nafngreindur. Ljós­mynd/​Royal Cana­di­an Moun­ted Police

Tveir kanadískir unglingsdrengir sem grunaðir eru um morð á þremur einstaklingum voru stöðvaðir af lögreglumönnum fyrir rúmri viku, en svo leyft að halda för sinni áfram.

BBC segir lögreglumenn í Split Lake hafa stöðvað piltana við hefðbundið áfengiseftirlit ökumanna, en síðan leyft þeim að halda áfram þar sem ekki var enn búið að greina frá því að þeir væru grunaðir um morð.

Þeir Kam McLeod, 19 ára, og Bryer Schmegelsky, 18 ára, eru grunaðir um að hafa myrt þau Chynna Deese og Lucas Fowler, sem og miðaldra mann sem enn hefur ekki verið nafngreindur.

Ítarleg leit lögreglu um Manitoba-fylki hefur ekki skilað árangri, en drengirnir eru sagðir hafa verið á flótta frá því þeir fóru að heiman fyrir tæpum þremur vikum.

Talið var að þeir hefðu haldið að heiman á Vancouver-eyju norður til að leita eftir vinnu á Yukon-svæðinu og beindist leit lögreglu í fyrstu þangað.

Eftir að líkin þrjú fundust hefur leit að þeim hins vegar færst yfir til Saskatchewan og Manitoba.

Undanfarna daga hefur leitin einkum beinst að York Landing í Manitoba, eftir að vitni tilkynnti að það hefði séð til „tveggja hárra og grannra einstaklinga” í nágrenni urðunarsvæðis sl. sunnudag.

Svæðið er einungis aðgengilegt úr lofti eða með ferju yfir sumartímann, en svæðið er umkringt skógi, mýri og ám.

Um 500 manns búa í bænum og hafa þeir verið hvattir til að hafa varann á sér og halda sig innandyra með hurðir læstar eins og kostur er. Leit á svæðinu hefur hins vegar enn ekki skilað árangri.

Nathan Neckoway, einn leiðtoga samfélagsins í Split Lake, staðfesti í samtali við kanadíska fjölmiðla að  McLeod og Schmegelsky hefðu farið þar í gegn fyrir viku á leið sinni til Gillam, sem er um 170 km austar.

Þeir hefðu tekið bensín og lögregla látið þá blása í blöðru. Þeir hefðu einungis verið með útivistarbúnað og kort í bílnum og hefðu því fengið að halda áfram för sinni.

„Við vissum ekki að þeir væru eftirlýstir,” sagði Neckoway. „Það var víst eftir það sem þeir sendu út tilkynninguna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert