Flúði yfir hlutlausa svæðið

Hermenn á hlutlausa svæðinu sem skilur að Norður- og Suður-Kóreu. …
Hermenn á hlutlausa svæðinu sem skilur að Norður- og Suður-Kóreu. Mynd úr safni. AFP

Yfirvöld í Suður-Kóreu eru með í haldi norðurkóreskan hermann sem gekk í nótt yfir hlutlausa svæðið svonefnda sem skilur að Kóreuríkin og óskaði eftir hæli í suðrinu.

Fram kemur í yfirlýsingu frá herforingjaráði Suður-Kóreu að maðurinn hafi verið sýnilegur á hitamyndavélum og hann sé norðurkóreskur hermaður sem hafi lýst yfir áhuga á að gerast liðhlaupi.

Tugir Norður-Kóreumanna flýja land ár hvert, en mjög sjaldgæft er að einhverjum takist að flýja yfir hlutlausa svæðið. Þannig var norðurkóreskur hermaður skotinn 40 sinnum af hersveit sinni er hann reyndi að flýja yfir hlutlausa svæðið í nóvember 2017.

BBC segir suðurkóreska herinn fyrst hafa orðið varan við manninn, sem flúði í nótt, í kringum miðnætti er hann var á ferð við ána Imjin sem rennur frá Norður-Kóreu í gegnum hlutlausa svæðið og yfir til Suður-Kóreu.

Suðurkóreskar hersveitir handsömuðu svo manninn og er hann nú í haldi hersins.

Norður-Kórea hefur undanfarna daga staðið fyrir tilraunum með eldflaugaskot eftir nokkurra mánaða hlé og greindi norðurkóreski ríkisfjölmiðillinn KCNA frá því að Kim Jong-un hefði haft yfir umsjón með tilraunaskotum á nýrri gerð fjarstýrðs eldflaugakerfis.

Tilraunirnar eru sagðar vera viðvörun til suðurkóresku stjórnarinnar vegna fyrirhugaðra heræfinga með Bandaríkjaher síðar í ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert