Herinn sviðsetti áhlaup á Hong Kong

Myndbandið sýnir vatnsbyssum beitt á almenna borgara.
Myndbandið sýnir vatnsbyssum beitt á almenna borgara. AFP

Yfirmaður kínversk setuliðsins í Hong Kong segir herinn staðráðinn í að verja fullveldi Kína. Hafa orð hans kynt undir ótta um hernaðaríhlutun kínverskra yfirvalda vegna mótmælanna undanfarinna vikna. Sviðsett myndband, sem kínverski herinn hefur birt, af setuliðinu gera áhlaup á götur Hong Kong, hefur síst dregið úr óttanum.

Guardian segir Chen Daoxian, yfirmann setuliðsins í Hong Kong hafa á miðvikudag tjáð sig í fyrsta skipti um mótmælin. Sagði hann, í móttöku sem haldin var í tilefni að 92 ára afmæli kínverska alþýðuhersins, að mótmælin „ógnuðu lífi og öryggi“ almennings og ættu ekki að líðast.

Daginn áður höfðu 43 mótmælendur, sem ákærðir höfðu verið fyrir óeirðir verið látnir lausir gegn tryggingagreiðslu.

Chen lýsti einnig yfir stuðningi við Carrie Lam, ríkisstjóra Hong Kong, sem og Hong Kong lögregluna fyrir að halda uppi lögum og reglu.

Skriðdrekar, vatnsbyssur og borgarar í handjárnum

Í móttökunni var sýnt myndband af kínverska hernum við ýmis tilefni. Sýnir eitt atriðið herinn bregðast við óeirðum með því að skjóta á almenna borgara sem flýja undan kúlnahríðinni. Skriðdrekar sjást þá mæta á svæðið, vatnsbyssur eru notaðar og almennir borgarar leiddir á brott í handjárnum.  Hermaður í myndbandinu hrópar þá á kantónsku, tungunni sem töluð er í Hong Kong frekar en á meginlandi Kína, og varar hann við því að afleiðingar allra aðgerða séu á eigin áhættu. Segir CNN baksviðið vera sviðsettar götur Hong Kong.

Mótmælendur eru sýndir leiddir á brott í handjárnum.
Mótmælendur eru sýndir leiddir á brott í handjárnum. AFP

Tung Chee-hwa, æðsti embættismaður kínverskra stjórnvalda í Hong Kong, hefur sakað Bandaríkin og Taívan, um að skipuleggja mótmælin, sem nú hafa staðið yfir í átta vikur. Fullyrti Tung að „erlendir stjórnmálamenn og andkínversk öfl með annarlegar ástæður“ vinni að því að „vekja ótta meðal íbúa Hong Kong og grafa undan samskiptum meginlandsins og Hong Kong“. Varaði hann Hong Kongbúa við að „láta nota sig“. 

Guardian segir ummæli Chen kynda enn frekar undir ótta um að kínverski herinn kunni að grípa til aðgerða gegn mótmælendum. Í síðustu viku sagði embættismaður kínverska varnarmálaráðuneytisins að herinn hafi lagalega heimild til að skerast í leikinn óski stjórnvöld í Hong Kong eftir aðstoð við að „viðhalda almannaró“. 

Hermenn í kínverska alþýðuhernum sjást í þessu skjáskoti úr myndbandinu …
Hermenn í kínverska alþýðuhernum sjást í þessu skjáskoti úr myndbandinu úti fyrir strönd Hong Kong. AFP

Sálfræðihernaður gegn íbúum

Bloomberg fréttaveitan greindi frá því í gær að bandarísk stjórnvöld fylgist náið með kínverskum herafla við landamæri Hong Kong.

„Orð setuliðsins eru hluti af sálfræðihernaði gegn Hong Kongbúum,“ hefur Guardian eftir Andreas Fulda, fræðimanni í kínverskum fræðum við Nottingham háskóla. Sjálfur teldi hann hins vegar ólíklegt að herinn muni skerast í leikinn til að forðast vopnum hernaðarátök í þéttbýli.

Frekari mótmæli hafa verið skipulögð fyrir næstu tvær vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert