Bandaríkjaforseti skrúfar upp í tollastríðinu

Donald Trump ræðir við fjölmiðla fyrir utan Hvíta húsið í …
Donald Trump ræðir við fjölmiðla fyrir utan Hvíta húsið í dag. Hann segir að tollar á kínverskar vörur muni enn aukast, 1. september næstkomandi, og er auðsjáanlega ekki ánægður með gang viðræðna við Kínverja. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag að 10% innflutningstollar yrðu lagðir á vörur frá Kína, sem samtals eru fluttar inn til Bandaríkjanna fyrir 300 milljarða Bandaríkjadala á ársgrundvelli. Þetta sagði hann, á Twitter-síðu sinni, að yrði gert frá og með 1. september næstkomandi.

Nú þegar heimtir Bandaríkjastjórn 25% toll af kínverskum vörum sem fluttar eru til landsins fyrir sem nemur 250 milljörðum Bandaríkjadala á ári hverju. Ríkin tvö hafa nú lagt tolla, eða sagst ætla að leggja tolla, á nær allar vörur sem fara þeirra á milli, en Kínverjar hafa svarað Trump með því að leggja tolla á bandarískar vörur á móti.

Hótaði enn hærri tollum

Trump bætti um betur er hann ræddi við blaðamenn í Hvíta húsinu í dag og sagði að tíu prósenta tollurinn væri bara til skamms tíma. Hann gæti hækkað prósentuna, eða lækkað hana, allt eftir því hvernig samninganefndum ríkjanna gangi að komast að samkomulagi um viðskipti þeirra á milli, en þær viðræður hafa staðið yfir í Sjanghæ í vikunni og virðist Trump – af þessu að dæma – ekki par hrifinn af gangi viðræðna. Hann sagði að hugsanlega færu tollarnir yfir 25%.

Trump sagði einnig á Twitter í dag að Kínverjar hefðu svikið gefin loforð um að kaupa „landbúnaðarafurðir frá Bandaríkjunum í miklu magni“ og um að hætta sölu fentanyls til Bandaríkjanna, en fentanyl er afar sterkt ópíumlyf sem er misnotað af miklum móð af fíklum vestanhafs og hefur dregið marga til dauða.

Við höfnina á Long Beach í Kaliforníu í dag.
Við höfnina á Long Beach í Kaliforníu í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert