Vissi ekki að vinurinn væri með hníf

Ethan Elder.
Ethan Elder. AFP

Faðir bandarísks tánings, sem handtekinn var í Rómaborg vegna morðs á ítölskum lögregluþjóni, segir son sinn ekki hafa vitað að vinur hans bæri á sér eggvopn. 

Gabriel Natale Hjorth, 18 ára, hefur verið ákærður fyrir morð ásamt vini sínum Finnegan Elder, 19 ára, vegna dauða lögregluþjónsins Mario Cerciello Rega sem var stunginn til bana þegar lögregla var kölluð á vettvang eftir að félagarnir tveir lentu í útistöðum við eiturlyfjasala sem þeir hugðust eiga viðskipti við. 

Elder hefur viðurkennt að hafa stungið Cerciello, 35 ára, með eggvopni. Segist hann hafa haldið að lögregluþjónninn, sem var ekki í einkennisbúningi, væri hættulegur eiturlyfjasali og kveðst hafa beitt vopninu í sjálfsvörn. 

Faðir hans, Ethan Elder, heimsótti táninginn í fyrsta sinn í Regina Coeli-fangelsið í Róm í dag. Faðir Natale hafði áður heimsótt son sinn sem er í varðhaldi í sama fangelsi. 

„Fundurinn var tilfinningaþrunginn en mjög erfiður fyrir okkur báða. Hann er í slæmu standi,“ sagði faðir Natale. „Gabriel vissi ekki að vinur hans væri vopnaður. Hann komst fyrst að því sem gerðist, að lögregluþjónninn hefði dáið, eftir að hann var handtekinn.“

Lögregluyfirvöld á Ítalíu segja það „ómögulegt“ að Natale hafi ekki vitað af hnífnum. 

Natale á samkvæmt lögreglu að hafa haldið samstarfsfélaga Cerciello niðri á meðan árásin átti sér stað og mögulega falið morðvopnið í kjölfarið. 

„Ég geri mér grein fyrir sársauka fjölskyldu lögregluþjónsins. En ég er sannfærður um að sonur minn sé saklaus,“ sagði faðir Natale. 

Natale færði syni sínum eintak af skáldsögunni „Gamli maðurinn og hafið,“ eftir Ernest Hemingway og ítalsk-enska orðabók, en honum var meinað að gefa syninum hið síðarnefnda þar sem orðabókin var harðspjalda og of beitt til að uppfylla öryggisskilyrði. 

Hann fékk leyfi til að gefa syni sínum brauð og kjötálegg en ekki tannkrem, svitalyktareyði, rafmagnstannbursta og stórt handklæði. 

Samkvæmt lögreglu voru táningarnir báðir undir áhrifum áfengis auk þess sem Elder hafði tekið lyfseðilsskyld lyf þegar morðið var framið. 

Eggvopnið sem Cerciello var myrtur með.
Eggvopnið sem Cerciello var myrtur með. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert