Ætla að breyta uppbyggingu hugbúnaðarins

Forstjóri Boeing, Dennis Muilenburg, segist þess fullviss að Max vélarnar …
Forstjóri Boeing, Dennis Muilenburg, segist þess fullviss að Max vélarnar verði komnar aftur í loftið í september. AFP

Boeing flugvélaframleiðandinn ætlar að breyta uppbyggingu hugbúnaðar MCAS  stýribúnaðar Boeing 737 Max farþegaþotanna, sem olli tveimur mannskæðum flugslysum. Reuters greinir frá þessu og hefur eftir heimildamönnum að breytingin feli í sér að lesið verði af báðum stýristölvum vélarinnar, ekki bara annarri líkt og gert er í dag.

Reuters segir þessa ákvörðun hafa verið tekna til að bregðast við vandamálum sem uppgötvuðust í prófunum sem gerðar voru í flughermi hjá bandaríska flugmálaeftirlitinu (FAA). Breytingarnar nú séu viðbót við fyrri tilkynningar um breytingar í þá vegu að lesið verði af báðum nemum MCAS kerfisins, sem ýtt höfum framenda vélarinnar niður til að koma í veg fyrir ofris.

Vonast Boeing ennþá til að hafa lokið endurhönnun hugbúnaðarins fyrir lok septembermánaðar og að hægt verði að senda þær þá til FAA til samþykktar.

Tók of langan tíma að bera kennsl á vandann

Farþegaþotur Boeing af 737 gerðinni hafa áratugum saman einungis lesið af annarri  stýristölvu flugvéla að því er Reuters hefur eftir heimildamönnum sem þekkja til hönnunar vélanna.

FAA greindi frá því í júní að nýr vandi hefði fundist í Max vélunum sem verði að taka á áður en vélarnar fái loftferðarleyfi á nýjan leik. Sagði Boeing á þeim tíma að ákveðin galli í miðverki örtölvu hefði valdið hreyfingu á hæðarstýriskambi og að það hefði tekið flugmenn of langan tíma að bera kennsl á vandann.  

Dennis Muilenburg, forstjóri Boeing, sagði í síðasta mánuði að hann væri þess fullviss að Max vélarnar yrðu komnar aftur í loftið í september.  Ekki eru öll flugfélög hins vegar bjartsýn á að svo verði og hafa til að mynda  Southwest Airlines og Air Canada tekið vélarnar út af flugáætlun sinni þar til í janúar á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert