Nýtt vígbúnaðarkapphlaup í uppsiglingu?

Bæði Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti hafa nú …
Bæði Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti hafa nú sagt sig frá kjarnorkuvopnasamkomulaginu frá 1987. AFP

Bandaríkin ætla að segja sig formlega frá kjarnorkuvopnasamkomulagi við Rússland sem þeir Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseti, og Sovétleiðtoginn Mikaíl Gorbatsjov undirrituðu árið 1987. BBC segir ákvörðunina vekja ótta um að nýtt vígbúnaðarkapp sé í uppsiglingu.

Samningurinn lagði bann við framleiðslu á meðaldrægum eldflaugum.

Fyrr á þessu ári sökuðu bandarísk stjórnvöld og NATO rússneska ráðamenn um að brjóta gegn banninu með dreifingu nýrrar gerðar eldflauga. Rússnesk stjórnvöld höfnuðu því hins vegar alfarið.

Bandarísk stjórnvöld hafa hins vegar sagst hafa sannanir fyrir því að Rússar hafi dreift fjölda eldflauga af gerðinni 9M729 og staðfestu bandamenn Bandaríkjanna hjá NATO síðar fullyrðinguna.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti svo í febrúar að Bandaríkin myndu segja sig frá samkomulaginu gengjust Rússar ekki undir samkomulagið á ný fyrir 2. ágúst.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í kjölfarið Rússa frá kjarnorkuvopnasamkomulaginu.

„Rússland er þegar tilbúið“

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, varaði við því að „ómetanleg bremsa á kjarnorkustríð“ hafi tapast með þessu.

„Þetta mun að öllum líkindum auka, ekki draga úr, ógninni sem stafar af meðaldrægum eldflaugum,“ sagði Guterres og hvatti þá sem aðild eiga að samkomulaginu til að leita nýrra leiða til að ná stjórn á vopnamálum á ný.

BBC segir sérfræðinga óttast að upplausn þessa sögulega samkomulags kunni að leiða til nýs vopnakapphlaups milli Bandaríkjanna, Rússlands og Kína.

„Nú þegar samkomulagið heyrir sögunni til munum við sjá þróun og dreifingu nýrra gerða vopna,“ sagði Pavel Felgenhauer, rússneskur hernaðarsérfræðingur, í samtali við AFP-fréttaveituna. „Rússland er þegar tilbúið.“

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði í síðasta mánuði að rússnesku flaugarnar brytu skýrlega gegn samkomulaginu. Þær gætu borið kjarnavopn, væru hreyfanlegar, erfitt væri að nema þær og þær gætu náð til evrópskra borga á nokkrum mínútum. „Þetta er alvarlegt mál,“ sagði Stoltenberg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert