Birti hatursfulla stefnuyfirlýsingu

Árásarmaðurinn gekk inn í verslunina með AK-47-riffil, drap 20 manns …
Árásarmaðurinn gekk inn í verslunina með AK-47-riffil, drap 20 manns og særði 26 til viðbótar. Hann hafði skrifað á internetið að árásin væri „svar við innrás fólks af rómönskum uppruna inn í Texas“. AFP

Yfirvöld í Texas rannsaka fjöldamorðið í verslun Walmart í El Paso í gær sem mögulegan hatursglæp og hryðjuverk. Árásarmaðurinn, 21 árs hvítur maður frá Dallas, er í haldi lögreglu, en hann fór inn í Walmart-verslunina og hóf skothríð sem kostaði 20 manns lífið og særði 26 til viðbótar.

Bandarískir fjölmiðlar segja að árásarmaðurinn heiti Patrick Crusius. Hann er sagður hafa birt stefnuyfirlýsingu, manifestó, þar sem hann fjallaði meðal annars um það sem hann kallaði „innrás“ fólks frá rómönsku Ameríku í Texas-ríki.

Greg Allen, lögreglustjóri í El Paso, sem er á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi í gærkvöldi að lögregla væri að skoða þessa stefnuyfirlýsingu mannsins og sagði að hún gæfi til kynna að setja mætti gjörðir hans í samhengi við hatursglæp.

Sagðist vera að „verja“ Bandaríkin

Í frétt AFP um málið er fjallað um það sem stendur í þessu manifestói árásarmannsins, sem hann birti að sögn CNN á vefsíðunni 8chan.

Hann sagði þar að árásin væri „svar við innrás fólks af rómönskum uppruna inn í Texas“ og vísaði með einhverjum hætti til skotárásanna í Christchurch á Nýja-Sjálandi, þar sem hvítur maður drap 51 múslima í mars á þessu ári.

Greg Allen lögreglustjóri í El Paso (t.v.) á blaðamannafundi í …
Greg Allen lögreglustjóri í El Paso (t.v.) á blaðamannafundi í gærkvöldi. AFP

Crusius hélt því fram að hann væri að „verja“ Bandaríkin frá menningarlegri og kynþáttalegri endurnýjun, sem hin meinta innrás fólks frá rómónsku Ameríku fæli í sér.

Hann skrifaði einnig að hann hefði undirbúið árásina í minna en mánuð og lýsti áætlun sinni sem einhverju sem hann þyrfti að hrinda í framkvæmd áður en hann myndi missa kjarkinn.

„Hinn óþægilegi sannleikur er sá að leiðtogar okkar, bæði repúblikanar og demókratar, hafa brugðist okkur áratugum saman,“ skrifaði árásarmaðurinn.

Rasismi og hatur

Veronica Escobar, þingmaður frá El Paso, sagði að stefnuyfirlýsing mannsins væri innblásin af hatri, rasisma, þröngsýni og sundrun. Hún sagði að El Paso hefði áratugum saman verið afar öruggt samfélag og myndi halda áfram að vera það, þrátt fyrir þennan glæp, sem framinn hefði verið til þess að skaða samfélagið í El Paso, sem hefði ekki sýnt þeim sem þangað koma neitt nema örlæti og góðsemi.

Um 680 þúsund manns búa í El Paso, sem liggur við Rio Grande-ána á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Á umliðnum misserum hefur borgin verið í brennidepli fjölmiðlaumfjöllunar um innflytjendamál á suðurlandamærum Bandaríkjanna, en hún er einn helsti aðkomustaður þeirra sem koma frá Mexíkó og öðrum löndum Mið-Ameríku til Bandaríkjanna í hælisleit.

Veronica Escobar, þingmaður demókrata frá El Paso.
Veronica Escobar, þingmaður demókrata frá El Paso. AFP
mbl.is