Frumbyggjar náðust á mynd í Amazon

Skjáskot úr myndbandinu sýnir frumbyggja Awá-ættbálksins horfa beint í myndavélina.
Skjáskot úr myndbandinu sýnir frumbyggja Awá-ættbálksins horfa beint í myndavélina. Ljósmynd/Skjáskot

Merkilegt myndband af frumbyggjum Awá-ættbálksins í Brasilíu, sem er að öllu leyti einangraður frá nútímasamfélaginu, var nýlega birt. Fólk úr öðrum ættbálki á svæðinu tók myndbandið upp.

Myndbandið sýnir mann sem virðist halda á sveðju og á einum tímapunkti lítur hann beint í myndavélina. Þá sést önnur manneskja stuttlega og virðist hún halda á því sem gæti verið örvar og bogi, áður en manneskjurnar hlaupa í burtu. 

Fólk úr nágrannaættbálkinum Guajajara, sem vinnur að því að vernda regnskóginn þar sem Awá-fólkið býr,  tók myndbandið upp á Maranhao-svæðinu í austurhluta Brasilíu.

Myndbandið var gefið út af Mídia India, sem er hópur innfæddra kvikmyndagerðamanna. Er það markmið Mídia að vernda regnskóginn frá ágangi mannfólksins. 

Skógarhöggsbúðir hafa sést í nágrenni við Awá-fólkið, sem hefur engin samskipti við annað fólk og vonast Erisvan Guajajara, sem tilheyrir Mídia India, að myndbandið komi í veg fyrir að skógarhöggsmenn ónáði eða ráðist á ættbálkinn. 

„Við fengum ekki leyfi Awá til að mynda en við vitum að það er mikilvægt að nota þessar myndir því ef við sýnum heiminum þær ekki munu skógarhöggsmenn drepa Awá,“ sagði Guajajara. 

„Við notum þessar myndir til að biðja um hjálp og biðjum stjórnvöld að vernda líf okkar og ættingja okkar sem vilja ekki vera í sambandi við utanaðkomandi.“

Samkvæmt CNN stafar Awá-fólkinu mikil hætta af auknum umgangi í Amazon-regnskóginum. Sumir hafa yfirgefið ættbálkinn og flutt úr skóginum, á meðan aðrir lifa í einangruðum hópum á því ósnerta svæði Amazon sem eftir er.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert