Of seint að stöðva Brexit án samnings?

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ásamt Priti Patel innanríkisráðherra.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ásamt Priti Patel innanríkisráðherra. AFP

Helsti ráðgjafi Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur varað breska þingmenn, sem vilja koma í veg fyrir að Bretar gangi úr Evrópusambandinu án þess að samið verði sérstaklega um það, við því að þeir hafi misst af lestinni í þeim efnum.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að ráðgjafinn, Dominic Cummings sem skipulagði kosningaherferð samtakanna Vote Leave í aðdraganda þjóðaratkvæðisins í Bretland sumarið 2016 þar sem meirihluti breskra kjósenda samþykkti að yfirgefa Evrópusambandið, hafi þannig bent á að yrði lagt fram vantraust á ríkisstjórn Johnsons þegar þingið kemur saman 5. september að loknu sumarleyfi og það samþykkt hefði forsætisráðherrann tvær vikur til þess að reyna að endurheimta stuðning meirihluta neðri deildar þess.

Tækist Johnson ekki að tryggja sér stuðning meirihluta neðri deildarinnar yrði hann að boða til þingkosninga. Hins vegar hefði hann verulegt svigrúm til þess að ákveða hvenær kosningarnar færu fram og gæti þannig hæglega tímasett þær rétt eftir að gert er ráð fyrir að Bretland gangi formlega úr Evrópusambandinu samkvæmt breskum lögum 31. október. Leysa þyrfti þingið upp 25 virkum dögum fyrir kosningar sem þýddi að þingmenn gætu á þeim tíma ekki lagt fram þingmál til þess að koma í veg fyrir útgöngu Bretlands í lok október.

Talið er að Johnson sé þegar að undirbúa þingkosningar skömmu eftir 31. október þegar hann stefnir að því að Bretland verði komið formlega úr Evrópusambandinu, með eða án samnings við sambandið, óháð því hvort lagt verður fram vantrauststillaga gegn honum eða ekki. Margt þykir benda til þess og þá ekki síst yfirlýsingar hans eftir að hann tók við sem forsætisráðherra um stóraukin fjárframlög til heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins og löggæslunnar, miklar breytingar hans á ríkisstjórn landsins og ráðning Cummings. Þá hefur verið boðuð viðamikil upplýsingaherferð stjórnvalda í tengslum við stóraukinn undirbúning fyrir útgöngu án samnings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert