Segja Trump ábyrgan fyrir árásunum

Efnt var til mótæmæla í New York í dag vegna …
Efnt var til mótæmæla í New York í dag vegna skotárásanna í El Paso og Dayton sem kostuðu 29 manns lífið. AFP

Nokkrir forsetaframbjóðenda Demókrataflokksins hafa í dag sakað Donald Trump Bandaríkjaforseta um að kynda undir kynþáttaaðskilnaði eftir að 29 fórust í tveimur fjöldamorðum í landinu í gærkvöldi og morgun. Sjálfur hefur Trump sagt „ekki vera neitt pláss fyrir hatur“ í Bandaríkjunum.

Árásirnar voru framdar með 13 klukkustunda millibili og hafa yfirvöld í El Paso í Texas, þar sem fyrri skotárásin var gerð þegar skilgreint hana sem hryðjuverk. 20 létust og 26 særðust þegar maður vopnaður árásarriffli hóf skothríð í Walmart verslun í borginni. Níu létust svo í Dayton í Ohio í morgun þegar maður sem einnig var vopnaður árásarriffli hóf skothríð utan við bar í borginni. 27 til viðbótar særðust í árásinni.

Hafa flestir frambjóðenda demókrata hvatt til hertrar byssulöggjafar í dag og hafa einhverjir þeirra sagt tengsl milli árásanna og vaxandi styrk hvítra hægri öfgamanna og kynþáttahaturs í Bandaríkjunum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ásamt forsetafrúnni Melaniu. Trump ræddi við fréttamenn …
Donald Trump Bandaríkjaforseti ásamt forsetafrúnni Melaniu. Trump ræddi við fréttamenn um skotárásirnar í El Paso og Dayton að loknu helgargolfinu. AFP

Segja Trump kynda undir ótta og hatri

Kenndu nokkrir frambjóðendanna Trump um.

„Donald Trump ber ábyrgð á þessu. Hann ber ábyrgð af því að hann kyndir undir ótta, hatri og umburðaleysi,“ sagði öldungadeildaþingmaðurinn Cory Booker í samtali við CNN.

Trump ræddi sjálfur við fréttamenn í dag og sagði þá: „Það er ekkert pláss fyrir hatur í landi okkar og við munum leysa þetta.

Við verðum að stöðva þetta. Þetta hefur viðgengis árum saman í landi okkar.“

Kvaðst Trump þegar hafa rætt við Bandarísku alríkislögregluna FBI, dómsmálaráðherrann William Barr og þingmenn um það hvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir slíkt ofbeldi.

Reuters segir forsetann ekki hafa nefnt nein dæmi um hvernig slíkt yrði gert, einungis að hann myndi flytja ávarp í fyrramálið.

Demókrataþingmaðurinn og forsetaframbjóðandinn Bernie Sanders allt benda til þess að …
Demókrataþingmaðurinn og forsetaframbjóðandinn Bernie Sanders allt benda til þess að Trump sé rasisti. AFP

Segir málið geðheilbrigðisvanda

Trump svaraði þá ekki fyrir ásakanir gagnrýnenda sinna, þó hann hafi áður sagt hryðjuverkaárásina í El Paso vera „verk hugleysingja“ og „hatursverk“.

„Þetta er líka geðheilbrigðisvandi,“ sagði Trump. „Þegar bæði málin eru skoðuð, þá eru þetta geðsjúkdómar. Báðir þessir menn voru mjög, mjög alvarlega andlega veikir.“

Þá fyrirskipaði hann að flaggað yrði í hálfa stöng til að minnast fórnarlambanna.

Mick Mulvaney, starfandi starfsmannastjóri Hvíta hússins, tók í sama streng og sagði skotárásirnar vera verk „veikra“ einstaklinga.

„Það vinnst ekkert með því að reyna að gera þetta að pólitísku máli,“ sagði hann í samtali við ABC sjónvarpsstöðina. „Þetta er félagslegur vandi og við verðum að taka á honum sem slíkum.“

Sanders og O'Rourke segja Trump hægri öfgamann

Skotárásin í El Paso var hins vegar persónulegt mál fyrir forsetaframbjóðandann Beto O’Rourke, sem kemur frá El Paso. Spurður af CNN hvort hann teldi Trump vera hvítan hægri öfgamann, svaraði hann: „Já, ég geri það.“

„Verum alveg skýr með hvað veldur þessu og hver forsetinn er,“ sagði O’Rourke. „Hann er opinskár rasisti og hvetur til aukinna kynþáttafordóma í landinu.“

Demókrataþingmaðurinn Bernie Sanders kvaðst einnig telja Trump vera hvítan hægriöfgamann.

„Það veitir mér enga gleði að segja þetta, en ég tel allar sannanir benda til þess að við séum með forseta sem er rasisti, sem er kynþáttahatari og sem höfðar til, eða reynir að höfða til hvítra hægri öfgamanna,“ sagði Sanders við CNN.

„Augljóslega þá vill Donald Trump ekki að neinn skjóti saklaust fólk,“ bætti hann við. Orð forsetans um innrás og að hann kalli Mexíkóa glæpamenn auki hins vegar hættu á að einstaklingar sem séu í andlegu ójafnvægi grípi til vopna. 

„Hvítir hægri öfgamenn telja hann vera hvítan hægri öfgamann,“ bætti þingmaðurinn Tim Ryan við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert