Afnema sérstöðu Kasmír-héraðs

Indverjar hafa sent tugi þúsunda hermanna til indverska hluta Kasmír-héraðs …
Indverjar hafa sent tugi þúsunda hermanna til indverska hluta Kasmír-héraðs undanfarna daga og í dag var tilkynnt að til stæði að afnema stjórnarskrárbundna sjálfstjórn héraðsins. AFP

Ríkisstjórn Indlands gaf í dag út að hún hygðist fella úr gildi hluta stjórnarskrár ríkisins, sem kveður á um sérstöðu Kasmír-héraðs, landsvæðisins umdeilda sem liggur á milli fjandríkjanna Indlands og Pakistans.

Nánar tiltekið er um að ræða 370. grein indversku stjórnarskrárinnar, sem veitir Kasmír-héraði töluverða sjálfstjórn, m.a. eigin fána og sjálfstæði í öllum málum nema utanríkismálum, varnarmálum og samskiptamálum.

Þetta er viðkvæmt mál, samkvæmt frétt BBC, þar sem þessar tilslakanir til handa íbúum Kasmír voru grundvöllur fyrir því að héraðið varð formlega hluti af Indlandi árið 1947, er Breska-Indlandi var skipt niður í Pakistan og Indland, ríki múslima og hindúa.

Búist við ófriði í kjölfarið

Búist er við því að þessi ákvörðun stjórnvalda, sem til stendur að hrinda í framkvæmd með hraði, muni valda ófriði. Indverjar hafa á allra síðustu dögum flutt tugi þúsunda hermanna til héraðsins og um helgina hefur þúsundum túrista verið gert að yfirgefa héraðið.

Tveir fyrrverandi ráðamenn í héraðinu hafa verið settir stofufangelsi í dag. Annar þeirra er Mehbooba Mufti, fyrrverandi ráðherra. Hún segir daginn í dag þann svartasta í sögu indversks lýðræðis og að ákvörðun stjórnvalda um að afnema sérstöðu Kasmír leiði til þess að Indland verði hernámsafl í héraðinu.

Bæði Pakistan og Indland gera tilkall til alls héraðsins og stjórna hvort sínum helmingi þess. Hafa þessi tvö kjarnorkuríki háð tvö stríð um landsvæðið frá árinu 1947 og oft hefur komið til smávægilegra skæra nærri landamærunum sem skilja að pakistanska og indverska hluta héraðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert