Skelfileg mismæli Donald Trump

Donald Trump mismælti sig á blaðamannafundi í dag.
Donald Trump mismælti sig á blaðamannafundi í dag. AFP

„Megi guð blessa minningu þeirra sem létust í Toledo,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi í dag. Hann var að tala um fórnarlömb skotárása síðustu daga en virðist eitthvað hafa ruglast því þær áttu sér stað í El Paso og Dayton, töluvert langt frá Toledo í Ohio-ríki.

CCN greinir frá. 

Tuttugu manns voru myrtir í skotárás í El Paso í Texas-ríki á laugardaginn og einungis nokkrum klukkustundum síðar voru níu manns myrtir í Dayton í Ohio-ríki. Toledo í Ohio-ríki er rúmlega 2.500 kílómetrum frá El Paso í Texas og um 250 kílómetrum frá Dayton í Ohio.

Hann er þó ekki sá eini sem hefur ruglast því Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, talaði um skotárásirnar í Houston og Michigan.

Trump hefur fyrirskipað að bandaríska fánanum verði flaggað í hálfa stöng næstu daga til að minnast þeirra sem voru myrt og syrgja með fjölskyldum þeirra. Hann hefur lýst fjöldamorðunum sem hryðjuverkaárásum.

Nokkrir forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins segja Trump bera að minnsta kosti nokkra ábyrgð á hryðjuverkunum því hann kyndi undir ótta, hatur og umburðarleysi.

Trump sjálfur hefur talað um að ofbeldisfullir tölvuleikir og geðheilbrigðisvandamál kunni að hafa spilað inn í.

Donald Trump segir að árásirnar séu meðhöndlaðar sem hryðjuverk.
Donald Trump segir að árásirnar séu meðhöndlaðar sem hryðjuverk. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert