Sýna 3.000 ára kistu drengfaraósins

Egyptar sýndu í gær gyllta kistu drengfaraósins Tútankamons, sem er nú verið að lagfæra í fyrsta sinn síðan grafhýsi faraósins var uppgötvað árið 1922. 

Lagfæring kistunnar hófst um miðjan júlí þegar kistan var færð á egypskt safn (e. Grand Egyptian Muse­um) úr grafhýsi Tútankamons í Konungadalnum í Lúxor. 

„Við erum að sýna ykkur einstaka sögulega mannasmíð, ekki bara fyrir Egyptaland heldur heiminn allan,“ sagði minjamálaráðherra Egyptalands, Khaled el-Enany, á blaðamannafundi á safninu í morgun. 

Unnið að lagfæringu kistunnar.
Unnið að lagfæringu kistunnar. AFP

Kista Tútankamons verður sýnd ásamt fleiri minjum úr grafhýsi hans út næsta ár. Er áætlað að lagfæring kistunnar muni taka um átta mánuði. 

Talið er að Tútankamon hafi lát­ist fyr­ir um 3.000 árum og var hann lík­lega á tán­ings­aldri þegar hann andaðist.

Faðir hans, Ak­hena­ten, olli mikl­um usla í Egyptalandi vegna trú­ar­skoðana sinna og féll valdatíð Tútankamons í skugga hins al­ræmda Ak­hena­ten. Dreng­fara­ó­inn þótti því ekki vera á meðal frækn­ustu fara­óa Egypta­lands hins forna, en þegar breski forn­leifa­fræðing­ur­inn How­ard Cart­er upp­götvaði graf­hýsi hans á fyrri hluta síðustu ald­ar vöktu þær ger­sem­ar sem þar fund­ust mikla at­hygli um heim all­an.

3,000 ára gömul múmía Tútankamons.
3,000 ára gömul múmía Tútankamons. AFP

Tútankamon er því í dag á meðal best þekktu egypsku fara­ó­anna.

Kista Tútankamons er til þess gerð að varðveita múmíu dreng­fara­ós­ins fyrir hita og raka, en vegna fjölda ferðamanna sem heim­sækja gröf hans hef­ur kist­an orðið fyr­ir skaða og múmí­an er ber­skjaldaðri en áður.

Unnið að lagfæringu kistunnar.
Unnið að lagfæringu kistunnar. AFP
Ýmsar fornminjar úr grafhýsi Tútankamons fá nú lagfæringu.
Ýmsar fornminjar úr grafhýsi Tútankamons fá nú lagfæringu. AFP
Gyllt kista drengfaraósins.
Gyllt kista drengfaraósins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert