Þurfa vegabréfsáritun til Bandaríkjanna

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Bandarísk stjórnvöld tilkynntu í gær að þau hefðu fellt úr gildi rétt erlendra ríkisborgara, sem heimsótt hafa Norður-Kóreu á undanförnum átta árum, til þess að koma til Bandaríkjanna án þess að þurfa að sækja um vegabréfsáritun.

Fram kemur í frétt AFP að ríkisborgarar 38 ríkja, þar á meðal Suður-Kóreu og Japans, geti heimsótt Bandaríkin í allt að 90 daga án vegabréfsáritunar.

Erlendir ríkisborgarar sem ferðast hafa til átta ríkja, þar á meðal Norður-Kóreu frá gærdeginum, eftir 1. mars 2011, þurfa hins vegar að sækja um vegabréfsáritun annaðhvort sem ferðamenn eða vegna viðskipta.

Breytingin mun hafa áhrif á hagsmuni mörg þúsund ríkisborgara umræddra 38 ríkja sem ferðast hafa til Norður-Kóreu á undanförnum árum.

Bandarískum ríkisborgurum hefur verið óheimilt að ferðast til Norður-Kóreu síðan 2017 eftir að bandarískur námsmaður, sem handtekinn hafði verið í landinu, var leystur úr haldi í dái og lést nokkrum dögum eftir heimkomuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert