Hætta á nýrri bylgju flóttamanna

AFP

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams vinna að því að gera sig gildandi á nýjan leik samkvæmt innanhússskýrslu sem unnin var af varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Frá þessu er greint í franska dagblaðinu Le Monde sem hefur skýrsluna undir höndum.

Fram kemur enn fremur í skýrslunni, samkvæmt fréttavefnum Euobserver.com, að þrátt fyrir að Ríki íslams hafi misst ráð yfir því landsvæði sem samtökin stjórnuðu um tíma í Írak og Sýrlandi hafi þau verið að færa sig upp á skaftið á nýjan leik á svæðinu. Meðal þess sem gert hafi Ríkis íslams auðveldara fyrir séu erfiðleikar annarra vopnaðra hópa við að halda þeim landsvæðum sem þeir höfðu áður tekið af samtökunum.

Bandarísk stjórnvöld lýstu yfir sigri á Ríki íslams á síðasta ári og drógu í kjölfarið til baka meirihluta þeirra bandarísku hermanna sem voru í Sýrlandi. Sérfræðingar og vopnaðir hópar sem barist hafa gegn samtökunum vöruðu við því að það væri of snemmt.

Samhliða þessari þróun er óttast að ný bylgja flóttamanna sé í vændum, ekki síst vegna vaxandi umsvifa Ríkis íslams, sem muni leita til Evrópuríkja. Þá hefur staða sýrlenskra flóttamanna farið versnandi í Tyrklandi og þarlend stjórnvöld hafist handa við að flytja þá aftur til Sýrlands í andstöðu við vilja þeirra. Enn fremur hafi aðstæður í Sýrlandi orðið hættulegri frá því sem var fyrir nokkrum mánuðum.

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, hefur enn fremur hótað að gera árás á kúrdískar hersveitir í Sýrlandi. Á sama tíma hafa Bandaríkjamenn stutt Kúrda í landinu pólitískt vegna baráttu þeirra gegn Ríki íslams.

Bandarísk stjórnvöld telja að um 14-18 þúsund vígamenn Ríkis íslams séu í Sýrlandi og Írak. Þar af um þrjú þúsund af erlendum uppruna.

mbl.is