Hungursneyð yfirvofandi í Simbabve

Fjármálakreppa, þurrkar og óstöðugt veðurfar er meðal þess sem hefur …
Fjármálakreppa, þurrkar og óstöðugt veðurfar er meðal þess sem hefur þau áhrif að þriðjungur íbúa í Simbabve þarf á matvælaaðstoð að halda, samkvæmt mati Sameinuðu þjóðanna. AFP

Yfir fimm milljónir íbúa í Simbabve, um þriðjungur þjóðarinnar, þarf á matvælaaðstoð að halda. Stór hluti þessa hóps er á barmi hungursneyðar, samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum. 

Mat­væla­áætl­un Sam­einuðu þjóðanna (WFP) hefur lagt fram rúmlega 330 milljóna dollara fjárhagsaðstoð, eða sem nemur rúmlega 40 milljörðum króna, sem nýtt verður til að bregðast við þurrki, hvirfilbyljum og fjármálakreppu í landinu. 

David Beasley, framkvæmdastjóri WFP, segir að neyðarástand sé yfirvofandi og að um 2,5 milljónir íbúa séu á barmi hungursneyðar. „Um er að ræða fólk sem mun búa við hungursneyð ef við verðum ekki til staðar og hjálpum þeim. Við erum að glíma við þurrk sem við höfum ekki upplifað áður,“ segir Beasley í samtali við BBC

Samkvæmt nýlegri skýrslu Mat­væla- og land­búnaðar­stofn­un Sam­einuðu þjóðanna (FAO) bjuggu rúmlega 820 millj­ón­ir jarðarbúa við hung­ur í fyrra og hef­ur fjöld­inn lítið breyst frá ár­inu 2015, er hann mæld­ist tæp 11%. Ára­tug­ina á und­an hafði dregið með stöðugum hætti úr hungri í heim­in­um. Frá 2015 hef­ur hins veg­ar þeim sem búa við hung­ur tekið að fjölga hægt og síg­andi á nýj­an leik, sem ger­ir mark­mið þess risa­vaxna verk­efn­is að binda endi á hung­ur í heim­in­um árið 2030 enn fjar­læg­ara. 

Uppskera í Simbabve hefur verið slæm vegna mikilla þurrka og hefur matvælaverð hækkað. Vatnsborð hefur einnig minnkað sem hefur áhrif á aðal raforkuver landsins og rafmagnsleysi verður æ algengara. 

Felli­bylurinn Idai sem gekk yfir Simbabve og stóran hluta sunnanverðrar Afríku í mars hefur einnig haft gríðarleg áhrif. Óveðrið olli gríðarlegri eyðilegg­ingu og breytti lífi millj­óna manna til hins verra.

Mthuli Ncube, fjármálaráðherra Simbabve, tilkynnti í síðustu viku að yfirvöld hafi séð 757.000 heimilum fyrir korni frá áramótum. Í gær lýsti forseti landsins, Emmerson Mnangagwa, yfir neyðarástandi vegna þurrka. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa nú þegar samþykkt neyðaraðstoð sem nemur 294 milljónum dollurum en stofnunin segir nú ljóst að þörf sé á auknu fjármagni til að bregðast við ástandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert