Bretar hætta við að hætta í Interrail

Bresk lestarfyrirtæki hafa ákveðið að draga sig ekki út úr …
Bresk lestarfyrirtæki hafa ákveðið að draga sig ekki út úr Evrópusamstarfinu. AFP

Bresk lestarfyrirtæki hafa ákveðið að draga sig ekki úr Interrail, samstarfsverkefni evrópskra lestarfyrirtækja, líkt og þau höfðu boðað í gær.

Samtök lestarfyrirtækjanna, Rail Delivery Group, höfðu í gær tilkynnt að frá og með áramótum myndu fyrirtækin draga sig úr samstarfinu við evrópsku samtökin Eurail Group og upp frá því myndu svokallaðir Interrail-miðar, lestarmiðar sem gera notendum kleift að ferðast um álfuna þvera og endilanga, ekki gilda í Bretlandi. 

Kom það til vegna deilna milli Rail Delivery Group og Eurail, sem bentu hvor á annan. Ákvörðunin hafði ekkert með útgöngu Breta úr Evrópusambandinu að gera, en ýmsir höfðu sagt hana vera til marks um heimóttaskap Breta.

Tilkynningin vakti hörð viðbrögð margra netverja og var Grant Shapps samgönguráðherra Breta meðal þeirra sem kallaði eftir því að lestarfyrirtækin skiptu um skoðun. Ákvörðunin væri til þess fallin að gera öllum erfiðara að ferðast um Bretland.

Ekki leið sólarhringur þar til samtök lestarfyrirtækjanna tilkynntu „með ánægju“ að skipt hefði verið um skoðun vegna mikilla viðbragða og að samkomulag hefði náðst við Eurail þess efnis að breskar lestarsamgöngur yrðu hluti af Interrail og Eurail-miðum.

Interrail-miðarnir voru kynntir til sögunnar árið 1972 og gera Evrópubúum kleift að ferðast um 31 Evrópuland með lestum og ferjum, með einhverjum takmörkunum þó. Miðarnir eru sérstaklega hagstæðir ungmennum, 27 ára og yngri, sem geta til að mynda fengið passa sem gildir í sjö daga lestarferðir um álfuna, sem nýta má yfir heilan mánuð, á rúmar 230 evrur, um 30.000 krónur.

Nýlega hóf Evrópusambandið að gefa heppnum 18 ára íbúum aðildarríkja ókeypis miða til að gefa þeim kost á að víkka sjóndeildarhringinn og kynnast öðrum kimum sambandsins. Í ár voru 7.000 miðar gefnir, en vilji Evrópuþingsins er að í framtíðinni standi öllum 18 ára íbúum miðinn til boða. Það myndi þó kosta skildinginn, en kostnaður við slíkt er talinn um 1,5 milljarðar evra á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert