Escobar neitaði að hitta Trump

Veronica Escobar, þingkona Demókrataflokksins fyrir Texas-ríki, neitaði að taka á móti forsetahjónunum í heimsókn þeirra til El Paso í gær, en þingkonan er fædd og uppalin í borginni.  

Donald og Melania Trump heimsóttu borgirnar Dayton og El Paso í gær þar sem tvær skotárásir um helgina kostuðu 31 lífið. Mótmæli og deilur forsetans við stjórnmálamenn settu óneitanlega svip sinn á heimsóknirnar, en forsetinn hefur verið sakaður Trump um að auka á spennu með orðfæri sínu um inn­flytj­end­ur.

Forsetahjónin heimsóttu spítalann í El Paso þar sem þau ræddu við fórnarlömb skotárásarinnar og lögreglumenn og viðbragðsaðila sem voru á vettvangi. Heimsóknin stóð í um klukkutíma og fyrir utan spítalann söfnuðust mótmælendur saman. Á skiltum þeirra mátti meðal annars finna skilaboðin „Farðu heim. Þú ert ekki velkominn hér!“. 

Veronica Escobar, þingkona Demókrataflokksins fyrir Texas-ríki, sagðist ekki geta tekið …
Veronica Escobar, þingkona Demókrataflokksins fyrir Texas-ríki, sagðist ekki geta tekið á móti Trump sökum orða hans og gjörða sem einkennast af kynþáttafordómum og hatursorðræðu. AFP

Escobar hefur gagnrýnt Trump harðlega fyrir yfirlýsingar sínar um innflytjendur. Í kosningabaráttunni fyrir þremur árum kallaði Trump til að mynda innflytjendur frá Mexíkó og öðrum ríkjum mið- og suður-Ameríku hyski og glæpalýð.

Árásarmaðurinn í Walmart-versluninni virðist einna helst hafa beint sjónum sínum að fólki af latneskum uppruna. Escobar segir að Trump verði að draga yfirlýsingar sínar til baka og endurskoða orðræðu sína, ellegar ýti hann undir voðaverk líkt og framin voru um helgina. 

Donald og Melania Trump ræddu við fórn­ar­lömb árás­ar­inn­ar í El …
Donald og Melania Trump ræddu við fórn­ar­lömb árás­ar­inn­ar í El Paso, sem og þá lög­reglu­menn og sjúkra­liða sem fyrst­ir mættu á staðinn. AFP

Escobar og Beto O'Rourke, sem sækist eftir útnefningu Demókrataflokksins í forsetakosningum á næsta ári, mættu á mótmælafund þar sem O'Rourke ávarpaði mannfjöldann og sagði Trump rægja innflytjendur. 

Trump brást við með því að segja O'Rourke að hafa sig hægan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert