Beittu táragasi á lestarstöð

Lögregla í Hong Kong gerði áhlaup á lestarstöðvar í borginni í gær og beitti táragasi til að reyna að koma mótmælendum þaðan út.

BBC segir myndbandsupptöku sem tekin var á Tai Koo-lestarstöðinni sýna lögreglumenn skjóta því sem virðast vera gúmmíkúlur á fólk úr návígi. Þá sjáist nokkrir lögreglumenn einnig berja fólk með kylfum í rúllustiga lestarstöðvarinnar.

Í Wan Chai-hverfinu var bensínsprengjum og múrsteinum kastað í lögreglu sem svaraði með því að gera áhlaup á mótmælendur. Segir BBC fjölda manns, bæði lögreglumenn og almenna borgara, hafa særst í átökunum.

Ekkert lát virðist hins vegar vera á mótmælunum sem upphaflega hófust í tengslum við umdeilt lagafrumvarp, en sem nú hafa staðið yfir í rúma tvo mánuði.

Mótmælt var með friðsamlegum hætti í Victoria Park-garðinum, en til átaka kom á nokkrum stöðum í miðbænum og beitti lögregla þar bæði gúmmíkúlum og táragasi gegn mótmælendum, m.a. í Tsim Sha Tsui-verslanahverfinu.

Mynd af konu með mikla blæðingu úr öðru auganu sem sögð er hafa orðið fyrir skoti lögreglu hefur fengið mikla dreifingu á samfélagsmiðlum. Þá hafa fjölmiðar í Hong Kong greint frá því að talið sé að óeinkennisklæddir lögreglumenn hafi laumað sér í raðir mótmælenda í því skyni að handtaka fólk því að óvöru.

Á alþjóðaflugvellinum í Hong Kong var þá mótmælt með friðsamlegum hætti þriðja daginn í röð. Engar fregnir hafa borist af handtökum á flugvellinum og flugumferð hefur verið án nokkurra truflana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert