Bretar á leið út án samnings

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur fyrirskipað öllum breskum embættismönnum að …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur fyrirskipað öllum breskum embættismönnum að setja unfirbúning fyrir mögulega útgöngu landsins úr Evrópusambandinu án sérstaks samnings í forgang. AFP

Flest bendir til þess að Bretland muni ganga úr Evrópusambandinu 31. október án þess að samið verði sérstaklega um útgönguna við sambandið. Leggja bresk stjórnvöld undir forystu Boris Johnson forsætisráðherra alla áherslu á að undirbúa landið fyrir það. Þá þykir margt benda til þess að enn fremur sé stefnt á þingkosningar í haust.

Forsætisráðherrann hefur ítrekað lýst því yfir að hann vilji landa útgöngusamningi við Evrópusambandið en slíkur samningur verði þá að vera ásættanlegur. Sú hafi ekki verið raunin varðandi útgöngusamningurinn sem forveri Johnsons í embætti, Theresa May, hafi samið um. Hvort sem samið verði eða ekki séu Bretar á leið út 31. október.

Frá því að Johnson tók við embætti í lok síðasta mánaðar hefur hann ekki setið auðum höndum í þessum efnum og hefur þannig til að mynda fyrirskipað öllum embættismönnum að setja undirbúning fyrir útgöngu úr Evrópusambandinu án útgöngusamnings í forgang. Hafa háar fjárhæðir enn fremur verið eyrnamerktar undirbúningnum.

AFP

Miklar breytingar Johnsons á ríkisstjórn Bretlands í kjölfar þess að hann tók við sem forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins og yfirlýsingar hans um stóraukin fjárframlög til heilbrigðis-, mennta- og löggæslumála þykja enn fremur benda til þess að hann stefni á þingkosningar í haust eftir að Bretland hefur gengið úr Evrópusambandinu.

Vantrauststillaga í undirbúningi

Forsætisráðherrann hefur hafnað því að Bretar taki þátt í viðræðum við Evrópusambandið vegna útgöngunnar nema sambandið sé reiðubúið að endurskoða lykilatriði í útgöngusamningnum sem May samdi um. Til þessa hefur Evrópusambandið ítrekað lagt áherslu á að ekki komi til greina að endurskoða samninginn.

Leiðtogi Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, hefur fyrirskipað þingmönnum sínum sem höfðu í hyggju að taka sér hefðbundið frí í september að hætta við þau áform sín, en talið er að Corbyn hafi í undirbúningi að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórn Johnsons eftir að neðri deild breska þingsins kemur saman 5. september.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa lýst því yfir að oft seint sé fyrir þá sem það vilja að koma í veg fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu án samnings. Jafnvel þó vantrauststillaga verði lögð fram og hún samþykkt. Takist Johnson ekki að afla sér nýs umboðs í þinginu muni hann boða til kosninga og tímasetja þær eftir útgönguna.

mbl.is/Gunnlaugur

Breska hugveitan Institute for Government hefur tekið undir það að möguleikar á því að koma í veg fyrir útgöngu Bretlands án samnings þrengist stöðugt. Sú löggjöf sem þurfi til undirbúnings fyrir útgönguna liggi í raun þegar fyrir í öllum meginatriðum, þar á meðal þess efnis að farið verði út 31. október með eða án samnings.

Drottningunni haldið fyrir utan deiluna

Verði vantrauststillaga á ríkisstjórn Johnsons samþykkt vilja leiðtogar stjórnarandstöðunnar að hann fari frá strax svo hægt verði að boða til kosninga fyrir 31. október. Talsmenn Johnsons segja hins vegar að honum beri ekki skylda til þess og geti setið þar til nýjar þingkosningar hafa farið fram - eftir útgönguna.

Forystumenn Verkamannaflokksins hafa sagt að fari Johnson ekki frá strax verði vantraust samþykkt á hann muni þeir fara á fund Elísabetar Bretadrottningar og krefjast þess að hún víki honum úr embætti. Fulltrúar forsætisráðuneytisins og Buckingham-hallar eru hins vegar sammála um að halda drottningunni fyrir utan þessa deilur.

Skoðanakannanir hafa bent til þess að standi Johnson við þær yfirlýsingar sínar að Bretland gangi úr Evrópusambandinu 31. október, með eða án samnings, eigi Íhaldsflokkurinn möguleika á að ná ríflegum meirihluta í neðri deild þingsins enda muni þá fylgi sem farið hafi á Brexitflokkinn að mestu skila sér aftur til baka.

Fátt virðist þannig benda til annars að óbreyttu en að Bretland muni yfirgefa Evrópusambandið 31. október án sérstaks útgöngusamnings og að þingkosningar fari síðan líklega fram í kjölfarið, líklega innan fárra daga frá útgöngunni, hvort sem vantrauststillaga verði lögð fram á ríkisstjórn Johnsons eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert