Fordæma Trump fyrir endurtístið

Beto O'Rourke, einn forsetaframbjóðenda Demókrataflokksins, hefur fordæmt Trump fyrir endurtíst …
Beto O'Rourke, einn forsetaframbjóðenda Demókrataflokksins, hefur fordæmt Trump fyrir endurtíst á samsæriskenningu um dauða Epsteins. AFP

Tveir forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins hafa fordæmt Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir að kynda undir samsæriskenningum um sjálfsvíg fjárfestisins og barnaníðingsins Jeffrey Epstein, sem fannst á laugardag látinn í fangaklefa sínum á Manhattan.

Trump endurtísti í gær samsæriskenningu um að Clinton-hjónin ættu þátt í dauða Epsteins og hafa frambjóðendurnir Beto O’Rourke og Cory Booker báðir fordæmt þá aðgerð forsetans.

„Þetta er enn eitt dæmið þar sem forseti okkar nýtir þá trúnaðarstöðu sem hann gegnir til að ráðast gegn pólitískum óvinum sínum með staðlausum samsæriskenningum,“ hefur CNN sjónvarpsstöðin eftir O‘Rourke.  Sagði hann Trump með þessu vera að reyna að beina athygli almennings frá mannskæðum skotárásum í El Paso í Texas og Dayton í Ohio fyrir rúmri viku, sem leitt hafa til ákalls um hertari byssulöggjöf og gagnrýni á orðræðu forsetans um innflytjendamál.

Booker sagði endurtíst forsetans vera „enn meiri glannaskap“.

„Hann er ekki bara að blása lífi í samsæriskenningar, heldur virkilega að æsa fólk upp til reiði og það sem enn verra er gegn ólíkum þjóðfélagshópum í landinu,“ sagði Booker við CNN.

Bæði bandaríska alríkislögreglan FBI og dómsmálaráðuneytið hafa hafið rannsókn á dauða Epsteins. Hann átti að vera undir eftirliti fangelsisvarða á hálftíma fresti. Því verklagi var hins vegar ekki fylgt nóttina áður en hann fannst.

Sagði dómsmálaráðherrann William Barr í gær að sér blöskraði að frétta að meintu sjálfsvígi í gæslu alríkisyfirvalda. Sagði hann dauða Epsteins vekja alvarlegar spurningar sem verði að svara.

Alexandria Ocasio-Cortez, demókrati og þingkona frá New York City, sagði á Twitter: „Við þurfum svör og heilan helling af þeim.“

Trump endurtísti á laugardag Twitter-skilaboð frá íhaldsama grínistanum Terrence K. Williams sem sagði Epstein „hafa upplýsingar um Bill Clinton & nú er hann dauður“.

Angel Urena, talsmaður Clinton hjónanna, fordæmdi forsetann fyrir að gefa slíkt í skin. „Fáránlegt og vitanlega ekki satt og Donald Trump veit það. Er hann núna búinn að virkja 25. viðaukann,“ sagði Urena og vísaði þar til þess ferlis þar sem annar tekur við forsetaembættinu vegna brottvikningar forseta eða óstarfhæfni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert