Rússar hóta Google

Frá mótmælum í Moskvu í júní. Stjórnvöld vilja koma í …
Frá mótmælum í Moskvu í júní. Stjórnvöld vilja koma í veg fyrir að slík myndbönd fái deilingu á Youtube. AFP

Google verður að hætta að leyfa notendum að deila myndböndum af ólöglegum mótmælum gegn rússneskum stjórnvöldum á Youtube, myndabandaveitu Google. Koma verði í veg fyrir að notendur hlaði upp slíkum myndböndum og sendi tilkynningar til áskrifenda sinna (e. subscribers) á myndbandaveitunni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjarskiptastofnun rússneskra stjórnvalda, sem greint er frá á vef Independent.

Fram kemur í tilkynningunni að bregðist vefsíðan ekki við muni rússnesk stjórnvöld „svara í sömu mynt“ án þess að sú hótun sé reifuð nánar.

„Ef Google bregst ekki við með viðeigandi hætti munu Rússar líta á það sem afskipti af innanríkismálum fullvalda ríkis og fjandsamlega hindrun á lýðræðislegum kosningum í Rússlandi,“ segir enn fremur í bréfinu.

Google hefur áður brugðist við hótunum stjórnvalda og fjarlægði til að mynda í fyrra auglýsingar Alexei Navalny, eins helsta andstæðings Pútín, af Youtube í aðdraganda héraðsstjórnakosninga síðasta haust, en stjórnvöld höfðu sagt auglýsingar ólöglegar svo stuttu fyrir kosningar. Í yfirlýsingu frá Google í kjölfarið kom fram að fyrirtækið gerði þær kröfur til auglýsenda að þeir framfylgdu lögum viðeigandi ríkis.

Mótmæla framgöngu kjörstjórna

Tugir þúsunda hafa tekið þátt í fjöldasamkomum í Rússlandi síðustu fjórar helgar til að mótmæla ákvörðun kjörstjórnar um að meina fjölda stjórnarandstæðinga að bjóða sig fram í sveitarstjórnarkosningum sem fyrirhugaðar eru í landinu.

Flest mótmælin hafa farið fram án heimildar borgaryfirvalda, en nú um helgina fékkst leyfi fyrir slíkum og er talið að um 50.000 manns hafi komið saman í Moskvu til mótmæla. Um 200 manns voru þó handteknir eftir að hafa haldið mótmælum áfram utan skilgreinds mótmælasvæðis, nær miðborginni.

Lög sem samþykkt voru í Dúmunni, rússneska þinginu, í ár skylda alla netumferð í Rússlandi til að fara í gegnum rússneska netþjóna en gagnrýnendur hafa haldið því fram að slíkt geti verið fyrsta skrefið í að koma upp samskonar „eldvegg“ og kínversk stjórnvöld nota til að loka á aðgang almennings að öllu efni sem ekki er stjórnvöldum þóknanlegt.

Alexei Navalny, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar.
Alexei Navalny, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert