Sýna merki kvíða og loftslagstrega

Ísjakinn hefur færst 400-600 metra í norðurátt síðan þessi mynd …
Ísjakinn hefur færst 400-600 metra í norðurátt síðan þessi mynd var tekin í gær. Enn er ástandið þó metið hættulegt. AFP

Loftslagsváin veldur áður óþekktu álagi og kvíða hjá Grænlendingum, sem eiga erfitt með að sætta hefðbundna lifnaðarhætti sína áhrifum hlýnunar jarðar.  

Guardian segir þetta vera niðurstöður fyrstu skoðanakönnunar sem gerð er á landsvísu um áhrif loftslagsvárinnar á fólk. 90% svarenda í könnuninni sögðust meðvituð um loftslagsvána og 76%  sögðust hafa upplifað áhrif hlýnunar jarðar í sínu daglega lífi. Dæmi sem nefnd voru um slíkt voru aukin hætta við að ferðast yfir hafís og að lóga hefði þurft sleðahundum af efnahagsástæðum sem séu afleiðing styttri vetrar.

Könnunin Greenlandic Perspectives On Climate Change 2018–2019 var unnin af félagsvísindastofnun Kaupmannahafnarháskóla, Kraks Fond-stofnuninni og Grænlandsháskóla og náði hún til tæplega 2% Grænlendinga.

Fá loks færi á að tjá sig um loftslagsvána

Kelton Minor, doktorsnemi við Kaupmannahafnarháskóla sem hafði yfirumsjón með könnuninni, segir afskekktustu og torfærustu byggðir Grænlands loksins fá tækifæri til að tjá sig um loftslagsvána.

„Norðurheimskautið er fremst í flokki varðandi þau ójöfnu áhrif sem hlýnun jarðar hefur á samfélög og efnahagskerfi,“ sagði Minor í samtali við Guardian. „Á meðan mörg ríki basla nú við að takmarka áhættu framtíðar og hlýnun umfram 1,5 °C búa íbúar á svæðum á norðurheimskautinu og Grænlandi þegar við það að staðbundið loftslag hefur breyst meira en þessu nemur á innan við einni mannsævi.“

76% sögðust hafa upplifað áhrif hlýnunar jarðar í sínu daglega …
76% sögðust hafa upplifað áhrif hlýnunar jarðar í sínu daglega lífi. Dæmi sem nefnd voru um slíkt voru aukin hætta við að ferðast yfir hafís og að lóga hefði þurft sleðahundum af efnahagsástæðum sem séu afleiðing styttri vetrar. mynd/Visitgreenland

Bendir Minor á að þó að gervihnettir og mælitæki fylgist náið með Grænlandsjökli og hopun hans sé lítið vitað um viðhorf Grænlendinga til þessara breytinga.

Telja hlýnun jarðar ekki koma norðurskautinu vel

Meirihluti þeirra Grænlendinga sem rætt var við var þeirrar skoðunar að loftslagsváin skaðaði fólkið, sleðahundana, gróður og dýralíf. Sú niðurstaða er þvert á fullyrðingar þess efnis að íbúar á svæðinu telji hlýnun jarðar koma íbúum á norðurheimskautinu til góða. Þess í stað veki könnunin áhyggjur af vaxandi geðheilbrigðisvanda vegna hlýnunar á heimskautssvæðinu.

„Við komumst að því að mikill meirihluti Grænlendinga telur hafísinn vera orðinn hættulegri  að ferðast yfir á undanförnum árum,“ sagði Minor. Hafísinn hafi verið mikilvægur Grænlendingum í samfélagslegu og efnahagslegu tilliti.

„Það sem máli skiptir er að íbúar eru líklegri til að hafa neikvæðar frekar en jákvæðar tilfinningar í garð loftslagsbreytinga, nýlegra breytinga á hafísnum sem og breytinga á jöklunum.“

Könnunin birtist á svipuðum tíma og hitamet hafa verið slegin á norðurheimskautinu. Samkvæmt mælingum hjá jöklarannsóknastofnunni National Snow and Ice Data Center í Colorado í Bandaríkjunum hurfu rúmlega 250 milljarðar tonna af snjó og ís úr Grænlandsjökli í síðasta mánuði, auk þess sem ofankoma var með minnsta móti.

Áfallastreituröskun tengd loftslagsbreytingum

Courtney Howard, formaður kanadísku læknasamtakanna Canadian Association of Physicians for the Environment, sem skoða tengsl heilsu og umhverfis, segir mega búast við að andleg og líkamleg heilsa íbúa tengd loftslagsvánni verði með stærstu heilbrigðisvandamálum sem heimurinn þurfi að takast á við.

„Hitabreytingar stigmagnast við pólana. Það er ekki spurning að fólk á norðurheimskautinu sýnir merki kvíða, „loftslagstrega“ og jafnvel áfallastreituröskunar sem tengist loftslagsbreytingum,“ sagði Howard.

„Við skorum á læknavísindin að gangast við þessum heimi sem við erum að erfa. Skólar og háskólar eru ekki að skoða hvaða áhrif loftslagsbreytingar munu hafa á fólk frá læknisfræðilegu eða andlegu sjónarhorni. Þannig að við erum ekki að þjálfa nýja kynslóð heilbrigðisstarfsfólks til að sinna fólki á þessari plánetu sem breytist nú hratt og það er óþolandi. Við erum of sein að bregðast við.“

mbl.is