Telja að 15 ára dóttur þeirra hafi verið rænt

Ljósmyndum af Noru hefur verið dreift víða í bæn­um Serembam …
Ljósmyndum af Noru hefur verið dreift víða í bæn­um Serembam þar sem hótel fjölskyldunnar er. AFP

Foreldar hinnar 15 ára gömlu Noru Quiorin bjóða nú 10 þúsund pund, eða því sem nemur tæplega einni og hálfri milljón íslenskra króna, fyrir upplýsingar um hvarf dóttur þeirra. Nora hvarf af hóteli fjölskyldunnar í fjölskyldufríi í Malasíu fyrir rúmlega viku síðan. 

Leitarteymi hafa kembt regnskógasvæði sem umlykur Dusun hótelið hvar Nora var í fríi með fjölskyldu sinni. Fjölskyldan kom til Malasíu þann 3. ágúst og morguninn eftir þegar foreldar Noru vöknuðu, var Nora horfin og glugginn að herbergi hennar opinn. 

Samkvæmt foreldrum Noru voru fundarlaunin gefin af nafnlausu fyrirtæki í Belfast á Norður-Írlandi. Auk fundarlaunanna hafa safnast um 100.000 pund, því sem nemur tæplega 15 milljónum króna, í netsöfnun fyrir fjölskylduna sem frænka Noru setti af stað. 

Foreldar Noru ásamt malasískum lögregluþjónum.
Foreldar Noru ásamt malasískum lögregluþjónum. AFP

„Nora myndi ekki vita hvernig hún ætti að biðja um hjálp og myndi aldrei yfirgefa fjölskyldu sína sjálfviljug,“ skrifaði frænka hennar undir söfnunina. „Nora er barn með sérþarfir og á við námsörðuleika og þroskahömlun að stríða sem gerir hana einstaklega varnarlausa og við óttumst um öryggi hennar.“

Nora er ekki eins og aðrir unglingar að sögn foreldra …
Nora er ekki eins og aðrir unglingar að sögn foreldra hennar. AFP

„Foreldrar hennar og fjölskyldur okkar á Írlandi og Í Frakklandi eru viti sínu fjær af áhyggjum vegna hvarfs hennar,“ bætti hún við. Móðir Noru er frá Belfast en faðir hennar er franskur. Fjölskyldan hefur búið í Lundúnum síðustu 20 ár, en Nora ferðaðist til Malasíu á írsku vegabréfi. 

Foreldar Noru telja líklegt að dóttur þeirra hafi verið rænt. Malasíska lögreglan hefur einnig kannað þann möguleika að Nora hafi látið sig hverfa af sjálfsdáðum. Foreldrar hennar segjast þó hafa „enga ástæðu“ til að trúa því að dóttir þeirra hafi einfaldlega farið eitthvert. 

Eftir því sem fram kemur á CNN hafa leitarhundar og þyrlur verið notaðar við leitina auk þess sem sjálfboðaliðar á svæðinu hafa boðið fram aðstoð sína. Þá hafa veggspjöldum með myndum af Noru verið dreift um svæðið. 

Umfangsmikil leit af Noru hefur staðið yfir í rúma viku.
Umfangsmikil leit af Noru hefur staðið yfir í rúma viku. AFP

Nora fæddist með heilkenni sem kallast holoprosencephaly og er fágæt röskun sem hefur áhrif á þróun heilans. Samskiptahæfileikar Noru eru takmarkaðir og hún á erfitt með að lesa og skrifa fleiri en nokkur orð. Þá hefur heilkennið einnig áhrif á jafnvægi hennar og hún á erfitt með samhæfingu. 

„Nora er afar sérstök manneskja. Hún er skemmtileg og fyndin og einstaklega kærleiksrík. Henni finnst gaman að segja okkur sniðuga brandara og klæðast snjöllum, litríkum stuttermabolum. Hún er ekki eins og aðrir unglingar. Hún er ekki sjálfstæð og fer ekkert ein,“ sögðu foreldar Noru í síðustu viku.

Leitaraðilar biðja saman áður en leit hefst.
Leitaraðilar biðja saman áður en leit hefst. AFP



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert