Um 300 Íslendingar á Gran Canaria

Miklir gróðureldar geisa nú á eyjunni Gran Canaria, en um …
Miklir gróðureldar geisa nú á eyjunni Gran Canaria, en um 300 Íslendingar eru staddir þar. AFP

Um þrjú hundruð Íslendingar eru nú staddir á eyjunni Gran Canaria þar sem eru miklir gróðureldar, að því er mbl.is kemst næst. Þá eru um 200 til 250 staddir á eyjunni í ferðum á vegum Úrvals-Útsýnar og 40 til 50 í ferðum Vita.

„Þetta hefur ekki mikil áhrif, því fólkið okkar er á suðurhluta eyjunnar. Það er svolítið langt á milli,“ segir Birgitta Ósk Pétursdóttir, fararstjóri Vita, í samtali við mbl.is. Suðurströndin er um 30 kílómetra í loftlínu frá því svæði sem eldurinn logar.

Birgitta Ósk Pétursdóttir.
Birgitta Ósk Pétursdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir Íslendingana ekki finna mikið fyrir brunanum. „Þau eru bara hérna á suðurströndinni að sóla sig . Hér er heldur ekki eins grænt og jafn mikið af trjám og svona. Þeir geta bara verið rólegir. Þeir eru sjálfir ekki mikið að hafa áhyggjur og ég er ekki búin að fá mikið af hringingum.“

Fararstjórinn segir ekki verið að selja ferðir inn á svæðin í kringum brunann. „Það verður bara rólegt frí á ströndinni. Við veitum bara allar upplýsingar um ástandið ef einhver hefur áhyggjur.“

Mikil áhrif á íbúa

Birgitta Ósk, sem er búsett á Gran Canaria, segir gróðureldinn snerta íbúana djúpt. „Þetta fer rosalega í hjartað á Kanaríbúum, þeir elska eyjuna sína svo mikið. Þeir eru svo stoltir af eyjunum sínum og þetta fer svo mikið í fólkið sem býr hérna. Það eru allir að tala um þetta úti á götu og allir að fylgjast með fréttunum.“

„Það var bara í seinasta mánuði sem UNESCO tók stað sem er þarna við brunann á heimsminjaskrá,“ bætir Birgitta Ósk við.

Hún segir það hafa verið mjög þurrt undanfarið og að yfirvöld hafi sent út viðvörun vegna þurrka 21. júlí. „Það er búið að vera rosalega þurrt og mikið búið að vera að ýta undir það að fólk eigi að passa sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert