Færa hersveitir að landamærum Hong Kong

Frá mótmælum á alþjóðaflugvellinum í Hong Kong í dag.
Frá mótmælum á alþjóðaflugvellinum í Hong Kong í dag. AFP

Bandarískar leyniþjónustan hefur varað við því að kínversk stjórnvöld séu nú að færa hersveitir að mörkum sjálfstjórnarhéraðsins Hong Kong vegna aukinnar hörku mótmælenda í Hong Kong gegn stjórnvöldum. Frá þessu greinir Donald Trump Bandaríkjaforseti á Twitter.

Öllu flugi um Hong Kong-flugvöll var í dag aflýst annan daginn í röð vegna mótmæla. Stjórnarandstæðingar krefjast þess að Carrie Lam, ríkisstjóri Hong Kong, segi af sér og sjálfstjórnarhéraðinu verði veittur réttur til að kjósa leiðtoga sína lýðræðislega.

Mótmælin hafa nú varað í tvo mánuði, en kveikjan að þeim var frumvarp sem lagt var fram á héraðsþinginu sem heimilaði framsal ákærðra í Hong Kong til meginlands Kína. Frumvarpið hefur nú verið afturkallað, en mótmælendur láta ekki staðar numið og vilja að Lam fari frá völdum. Telja þeir hana of halla undir kínversk stjórnvöld, sem hafa ítrekað lýst yfir stuðningi sínum við hana.

mbl.is